Allt að tíu látnir eftir skotárás í verslun Walmart

Verslun Walmart í Kaliforníu.
Verslun Walmart í Kaliforníu. AFP/Robyn Beck

Byssumaður drap hóp fólks í verslun Walmart seint í gærkvöldi í bandaríska ríkinu Virginíu, að sögn lögreglunnar og embættismanna. Árásarmaðurinn er einnig látinn.

„Við fundum marga látna og marga særða,“ sagði Leo Kosinski hjá lögreglunni í borginni Chesapeake. Hann bætti við að lögreglumenn hafi farið strax inn í verslunina þegar þeir komu á vettvang.

„Við teljum að árásarmaðurinn hafi verið einn og að hann sé látinn,“ sagði hann.

Óljóst er hversu margir voru drepnir en ekki er talið að þeir séu fleiri en tíu talsins.

Louise Lucas öldungadeildarþingmaður sagðist vera „virkilega sorgmædd yfir því að nýjasta skotárásin í Bandaríkjunum hafi gerst í sínu umdæmi í Chesapeake í Virginíu í nótt.“

„Ég mun ekki linna látum fyrr en við finnum leiðir til að binda enda á þennan byssuofbeldisfaraldur í landinu okkar sem hefur orðið svo mörgum að bana,“ bætti hún við á Twitter.

Walmart sagðist á Twitter vera í áfalli vegna árásarinnar og biðja fyrir þeim sem urðu fyrir henni og þeim sem tengjast fórnarlömbunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert