Wagner-liðinn handtekinn

Andrei Medvedev var yfirmaður í hinum alræmdu Wagner-málaliðasveitum sem kaupsýslumaðurinn …
Andrei Medvedev var yfirmaður í hinum alræmdu Wagner-málaliðasveitum sem kaupsýslumaðurinn Jevgení Prígosjín, „kokkur Pútíns“ stendur á bak við og fjármagnar. Ljósmynd/Русь сидящая

Norska lögreglan hefur handtekið rússneska flóttamanninn Andrei Medvedev sem forðaði sér á hlaupum yfir landamærin og kvaðst vilja bera vitni gegn helsta bakhjarli Wagner-málaliðasveitarinnar, Jevgení Prígosjín, en eins og mbl.is hefur greint frá fór Medvedev með mannaforráð innan Wagner sem meðal annars berst í Úkraínu.

Að sögn lögmanns Medvedevs, Brynjulf Risnes, er grundvöllur handtökunnar misklíð lögreglunnar og Rússans um þær öryggisreglur sem gilda skuli um hann og er handtakan framkvæmd með stoð í löggjöf um útlendinga.

Að sögn Jon Andreas Johansen, deildarstjóra lögfræðideildar útlendingaeftirlits lögreglunnar, er nú verið að meta hvort rétt sé að Medvedev sæti öryggisgæslu, sem er sérstakt úrræði byggt á ákvæðum Genfarsáttmálans og snýr í framkvæmd einkum að stríðsföngum þótt strangt til tekið teljist Medvedev ekki stríðsfangi í Noregi.

Óttast framsal umfram allt

Síðan handtakan átti sér stað í gær hefur sú breyting orðið á högum Medvedevs að hann dvelur nú í húsnæði á vegum útlendingaeftirlitsins á Trandum en ekki í íbúð á leynilegum stað í Ósló eins og fram til þessa.

„Ég held að það sé í allra þágu að finna lausn sem báðir aðilar geta fallist á,“ segir Risnes lögmaður í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og kveðst ekki telja öryggisgæsluna fela þá lausn í sér.

„Hann hefur gengið í gegnum miklar hremmingar og ekki sjálfgefið að hann beri traust til fólks eða stofnana. Deilur hafa risið um strangar öryggiskröfur og þar þarf að finna lausn,“ segir Risnes enn fremur. Í viðtali sem Medvedev veitti rússneska vefnum Gulagu.net nýlega kemur fram að hann treysti ekki norskum stjórnvöldum og óttist helst að vera framseldur til Rússlands þar sem lífsháski bíði hans.

NRK

VG

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert