Ákærður fyrir tengsl við Derípaska

Charles McGonigal.
Charles McGonigal. AFP/Michael M. Santiago/Getty

Fyrrverandi háttsettur fulltrúi bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, hefur verið ákærður fyrir að brjóta lög um refsiaðgerðir gegn Rússum með því að starfa fyrir rússneska auðkýfinginn Óleg Derípaska.

Charles McGonigal er sakaður um að hafa rannsakað keppinaut Derípaska gegn því að fá leynilegar greiðslur frá honum.

Deripaska er samherji Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta og fyrr­ver­andi viðskipta­fé­lagi Pauls Mana­fort, fyrr­ver­andi kosn­inga­stjóra Donalds Trump.

Stýrði rannsóknum á ólígörkum

Bandaríkin beittu Derípaska refsiaðgerðum árið 2018 vegna náinna tengsla hans við rússnesk stjórnvöld og innlimunar Rússa á Krímskaga frá Úkraínu fjórum árum áður.

Hann var einnig ákærður í september í fyrra fyrir leynimakk sem fólst í því að útvega tveimur börnum hans bandarískan ríkisborgararétt, sem var brot á lögum um refsiaðgerðirnar.

McGonigal, 54 ára, hætti störfum hjá FBI árið 2018. Hann hafði yfirumsjón með og tók þátt í rannsóknum á rússneskum ólígörkum, þar á meðal Derípaska.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert