Stríðið megi ekki þróast út í átök við NATO

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, segir Vesturlöndin þurfa að gæta sín þegar kemur að stuðningi við Úkraínu. Þessi orð lét hann falla í kjölfar þess að Þjóðverjar tilkynntu í dag að þeir myndu senda skriðdreka af teg­und­inni Leop­ard 2 til Úkraínu, eftir margra vikna þrýsting.

„Við verðum ávallt að gæta þess í öllu sem við gerum að við séum að gera það sem er nauðsynlegt og raunhæft til að styðja við Úkraínu, en á sama tíma að við séum að sjá til þess að átökin þróist ekki út í að verða stríð milli Rússlands og Atlantshafsbandalagsins,“ sagði Scholz er hann ávarpaði þingið í dag. 

Þýsk stjórn­völd ætla að út­vega úkraínsku þjóðinni 14 Leop­ard 2 A6-skriðdreka, auk þess sem þau hafa veitt öðrum Evr­ópuþjóðum heim­ild til að senda slíka skriðdreka úr eig­in birgðageymsl­um til Úkraínu.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, tók ákvörðun Þjóðverja fagnandi. „Á svona mikilvægu augnabliki í stríðinu við Rússa þá getur þetta hjálpað Úkraínu að verjast, vinna og halda áfram sem fullvalda ríki,“ skrifaði Stoltenberg á Twitter.

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands.
Olaf Scholz, kanslari Þýskalands. AFP/Tobias Schwarz
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert