„Haf fyrir framan okkur“

Það er mikil heppni að rútan hafnaði ekki ofan í …
Það er mikil heppni að rútan hafnaði ekki ofan í skarðinu en það var stöðuvatn á veginum þegar rútan kom þangað í gærkvöldi Ljósmynd Sævar

Ekki væsir um farþega í rútu með rúmlega fimmtíu nemendum við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra sem hafa setið föst í rútu á Djúpvegi í alla nótt. Auðunn Sigurðsson, einn fararstjóra hópsins og foreldri, segir það heppni að rútan hafi ekki hafnað ofan í skarðinu og það sé haf fyrir framan rútuna.

Nú þegar farið er að birta segir Auðunn ævintýralegt að horfa fram fyrir rútuna.

„Það er haf fyrir framan okkur sem er að fara yfir veginn og það er eiginlega stöðuvatn á veginum. Við vorum bara stálheppin að fara ekki niður í þessa holu,“ segir Auðunn.

Að sögn Auðuns eru 56 um borð í rútunni en alls eru 52 unglingar með í för. Hópurinn var á heimleið á Sauðárkrók í gærkvöldi eftir að hafa eytt helginni á Ísafirði í heimsókn hjá vinaskóla FNV, Menntaskólanum á Ísafirði.

Hann segir að búið sé að koma ræsinu fyrir yst í Staðardalnum, við gatnamót Djúpvegar og Drangsnesvegar, og byrjað að fylla upp með jarðvegi. Það bendi því allt til þess að hópurinn komist leiðar sinnar fljótlega.

Um hálfþrjúleytið í nótt kom Jón, staðarhaldari á hótelinu á Reykjanesi, með vistir til hópsins og segir Auðunn að það hafi verið mjög gott að geta gefið unglingunum að borða áður en þau fóru að sofa. 

Að sögn Auðuns kom Jón færandi hendi en hann fór yfir Steingrímsfjarðarheiði í nótt á sérútbúnum fjallatrukk með vistir fyrir hópinn. 

„Það var voðalega gott að geta sent unglingana sadda í háttinn. Hann kom með smurt brauð, kók, vatn og djús. Sem og kex, súkkulaði og snakk fyrir hópinn,“ segir Auðunn. Þegar mbl.is hafði samband við Jón á Reykjanesi í morgun staðfesti hann að hafa farið með vistir til hópsins en vildi ekki tjá sig frekar um málið.

Tilkynning frá Vegagerðinni:

Djúpvegur nr 61 rétt fyrir sunnan Hólmavík (við Skeljavík) er nú lokaður þar sem vegurinn er í sundur. Sami vegur er líka í sundur yst í Staðardalnum, við gatnamót Djúpvegar og Drangsnesvegar.

Búið er að opna veginn um Holtavörðuheiðina að nýju.

Vegir á Suður- og Vesturlandi eru að mestu greiðfærir, þó er eitthvað um hálkubletti í uppsveitum Suðurlands.

Á Vestfjörðum eru vegir að verða auðir en snjóþekja og éljagangur er á Þröskuldum en hálka og skafrenningur á Gemlufallsheiði. Óveður og hálka er á Mikladal en snjóþekja og stórhríð á Hálfdáni. Vegur 61 við Skeljavík, rétt sunnan við Hólmavík, er lokaður þar sem stórt skarð hefur myndast í veginn og er reiknað með að viðgerð geti tekið töluverðan tíma.

Vegir eru víða greiðfærir á Norðurlandi en þó er eitthvað um hálkubletti. Hálka og éljagangur er á Öxnadalsheiði en óveður á Mývatns- og Möðrudalsöræfum.

Á Austurlandi er víða orðið greiðfært en þó eru enn hálkublettir á stöku stað. Greiðfært er einnig að mestu með suðausturströndinni en óveður er á Hvalnesi.

Undanfarna daga hefur hópur af hreindýrum verið við veg á milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar og eru vegfarendur beðnir að sýna aðgát.

Gríðarlegar leysingar hafa verið á Vestfjörðum um helgina.
Gríðarlegar leysingar hafa verið á Vestfjörðum um helgina. Ljósmynd/Sigurjón J. Sigurðsson
Rúmlega fimmtíu nemendur eru í rútunni auk fararstjóra, alls 56 …
Rúmlega fimmtíu nemendur eru í rútunni auk fararstjóra, alls 56 manns. Ljósmynd Sævar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert