Bjartari spá en viðbúið var

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra ferðamála segir að henni þyki „bjartara yfir“ spá Isavia um farþegafjölda á Keflavíkurflugvelli en hún bjóst við, með tilliti til væntrar fækkunar erlendra ferðamanna.

„En ég samt vil líka alltaf nefna það að fjöldinn er ekki það sem skiptir mestu máli, heldur frekar það á hvaða markaði við erum að sækja, hvað fólk er að dvelja lengi og hvað það er að skilja eftir sig,“ segir ráðherra í samtali við mbl.is.

Búist er við því að fækkun verði á erlendum ferðamönnum sem koma til landsins um Keflavíkurflugvöll utan háannatíma, en búist er við áframhaldandi vexti á milli ára yfir sumarmánuðina.

Isavia gerir ráð fyrir því að 37% þeirra erlendu ferðamanna sem komi til landsins um Keflavíkurflugvöll muni koma yfir sumarið, en þetta hlutfall var 32% í fyrra og hafði aldrei verið jafn lágt. 

Skipting erlendra ferðamanna á milli tímabila.
Skipting erlendra ferðamanna á milli tímabila. Graf/Isavia

„Við höfum náð ótrúlega miklum og góðum árangri hvað það varðar, að dreifa ferðamönnum yfir árið,“ segir Þórdís Kolbrún, en hún segir það viðvarandi verkefni og sífellda áskorun að dreifa ferðamönnum sem hingað koma og lenda á suðvesturhorninu, betur um landið.

Aðrar fluggáttir hafi jákvæð áhrif

„Við erum auðvitað með alls konar aðgerðir til þess að reyna að stuðla að frekari dreifingu og uppbygging áfangastaða, bættar samgöngur og fleiri seglar um landið skiptir allt máli,“ segir Þórdís Kolbrún og nefnir að beint millilandaflug til annarra staða en Keflavíkurflugvallar skipti líka máli.

„Við sjáum það fyrir norðan, með því beina millilandaflugi sem þangað er, að það er að skila sér og hafa áhrif á það svæði, ekki bara á Akureyri heldur langt út fyrir þann kjarna. Vestur-Húnavatnssýsla finnur fyrir því að það er flogið beint á Akureyri,“ segir Þórdís Kolbrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert