Búið að fjarlægja sprengiefnið og lokunum aflétt

Sprengjusveitarmenn frá Landhelgisgæslunnar og sérsveit ríkislögreglustjóra komu að verkefninu. Mynd …
Sprengjusveitarmenn frá Landhelgisgæslunnar og sérsveit ríkislögreglustjóra komu að verkefninu. Mynd úr safni. mbl.is/Valli

„Aðgerðum á vettvangi er lokið og er íbúum nú frjálst að snúa til síns heima,“ segir í tilkynningu lögreglunnar á Suðurlandi. Búið er að fjarlægja 150 kg af dýnamíti úr gám í iðnaðarhverfi í Njarðvík.

„Það verður að öllum líkindum flutt á gamalt svæði sem herinn hafði til afnota þar sem verður að öllum líkindum eytt,“ segir varðstjóri lögreglunnar á Suðurnesjum í samtali við mbl.is. Ekki er ljóst hvenær það verður en líklega verður sprengiefninu eytt í kvöld.

Lögreglan á Suðurnesjum greið til rýmingaraðgerða í Njarðvík klukkan fjögur í dag eftir að gamalt sprengiefni fannst í gámi á iðnaðarsvæði í námunda við íbúðarhverfi. Þá voru íbúar í innan við 400 metra fjarlægð frá svæðinu beðnir um að halda sig innandyra.

Aðgerðirnar voru umfangsmiklar enda um mikið magn af sprengiefni að ræða og tóku þær töluverðan tíma því farið var að öllu með gát. Sérstökum vökva var úðað yfir sprengiefnið sem gerði það óvirkt fyrir flutning.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjunum sem var send út eftir að aðgerðum lauk er sprengjusveit Landhelgisgæslunnar, sprengjusérfræðingum sérsveitar ríkislögreglustjóra sem og björgunarsveitinni Landsbjörg færðar miklar þakkir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert