Reykjavíkurskákmótinu aflýst

Íraninn Alireza Firouzja var á meðal þátttakenda á Reykjavíkurskákmótinu í …
Íraninn Alireza Firouzja var á meðal þátttakenda á Reykjavíkurskákmótinu í fyrra. Mótinu í ár hefur verið aflýst sökum útbreiðslu kórónuveirunnar hér á landi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Reykjavíkurskákmótinu sem átti að fara fram um miðjan apríl hefur verið aflýst og Íslandsmóti skákfélaga sem átti að fara fram síðar í þessum mánuði hefur verið frestað. Stjórn skáksambandsins ákvað þetta á fundi sínum í gærkvöld en ástæðan er útbreiðsla kórónuveirunnar hér á landi. 

„Stjórn Skáksambands Íslands harmar að til þessarar ákvörðunar hafi komið. En í ljósi aðstæðna var það mat stjórnarinnar að þessi ákvörðun væri hin eina rétta í stöðunni,“ segir í tilkynningu frá sambandinu, en ákvörðunin var tekin með hliðsjón af ráðleggingum embættis landlæknis um að skynsamlegast væri að fresta mótunum tveimur.

Stefnt er að því að halda Íslandsmót skákfélaga síðari hluta maí að óbreyttu. Önnur mót, þar með talinn landsliðs- og áskorendaflokkur Íslandsmótsins í skák og Íslandsmót barnaskólasveita, fara fram á áður tilgreindum tíma nema aðstæður krefjist annars.

35 hafa greinst með kórónuveiruna sem veldur COVID-19-sjúkdómnum síðastliðna sjö daga hér á landi. Fjölda viðburða og samkoma hefur verið frestað vegna útbreiðslu veirunnar en almannavarnir telja enn sem komið er ekki nauðsynlegt að koma á samkomubanni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert