Dapurlegt að VG hafi ekki náð meiru fram

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður utan flokka.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður utan flokka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lítið sem ekkert hefur áunnist í málefnum hælisleitenda og flóttafólks frá því ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók til starfa fyrir hartnær þremur árum. Þetta segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður, sem gekk í dag úr þingflokki Vinstri grænna.

Hún segir það dapurlegt að VG skuli ekki beita sér harðar eða ná meiru fram í málaflokknum í samræmi við það sem flokkurinn hafði boðað á síðasta kjörtímabili og í kosningabaráttunni. „Það er greinilegt að Sjálfstæðisflokkurinn ræður för í þessum efnum; hann er með dómsmálaráðuneytið og hann skellir í lás þegar kemur að mannúðarsjónarmiðum hjá börnum á flótta,“ segir Rósa.

Hún bendir á að ekki hafi verið mótuð stefna með mannúðarsjónarmið að leiðarljósi í málefnum hælisleitenda og flóttafólks líkt og boðað var í stjórnarsáttmála (sjá bls. 30). Kornið sem fyllti mælinn hafi þó verið mál Kehdr-fjölskyldunnar egypsku, sem til stendur að vísa úr landi og væri raunar búið að gera ef hún væri ekki í felum.

Aðspurð segir Rósa að umræddur málaflokkur sé sá sem hafi staðið henni einna næst, en meðal annarra þar sem hún telji ríkisstjórnina ekki hafa gengið nógu hreint til verka séu umhverfis- og loftslagsmál. „Ég hefði viljað að við tækjum róttækari skref.“

Spurð út í það sjónarmið að vænlegra sé að sitja í ríkisstjórn og fá einhverju framgengt, þótt ekki sé jafnlangt gengið og flokkurinn hefði viljað, segir Rósa það ekki eiga við lengur. „Ég fór ekki í stjórnmál til styðja það að að vísa börnum á flótta úr landi.“

Útilokar ekki að ganga í annan flokk

Eftir að hafa sagt sig úr þingflokki VG situr Rósa nú á þingi utan þingflokka, rétt eins og Andrés Ingi Jónsson, sem sagði sig úr Vinstri grænum í fyrra. Þau tvö voru einmitt einu þingmenn ríkisstjórnarflokkanna sem kusu gegn stjórnarsamstarfinu á sínum tíma.

Báðir hafa þingmennirnir verið orðaðir við Samfylkinguna, en því hefur einnig verið fleygt fram að Andrés Ingi íhugi að stofna nýjan flokk í samstarfi við aðra úr grasrót Vinstri grænna.

Spurð hvort til greina komi að ganga til liðs við annan stjórnmálaflokk á yfirstandandi þingi, eða í næstu kosningum, vill Rósa hvorki svara því játandi né taka fyrir það. „Ég er bara að ganga úr mínum gamla flokki núna þar sem ég hafði ætlað mér að starfa þótt ég hafi ekki samþykkt stjórnarsamstarfið,“ segir hún. Framtíðin sé óráðin.

Fagnar áformum um afnám Dyflinnarreglugerðarinnar

Rósa hefur á þessu kjörtímabili gegnt formennsku í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins. Þar að auki hefur hún verið varaforseti Evrópuráðsþingsins og er nú varaformaður flóttamannanefndar þess. Rósa vonast til þess að hún haldi þeim störfum þrátt fyrir að hafa yfirgefið stjórnarflokkana. „Ég vona það. Ég tel þótt ég segi ég hafi verið öflugur formaður Íslandsdeildarinnar, þótt ég segi sjálf frá, enda hefur mér verið treyst fyrir mikilvægum trúnaðarstörfum innan ráðsins,“ segir hún.

Í stefnuræðu Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í gær kom fram að framkvæmdastjórnin myndi beita sér fyrir því að Dyflinnarreglugerðin yrði afnumin. Reglugerðin snýr að móttöku flóttafólks innan ESB og EES-ríkja, og gefur ríkjum rétt til að senda til baka flóttafólk til þess Evrópulands sem það steig fyrst fæti í. Hefur reglugerðin átt að koma í veg fyrir að flóttafólk ferðaðist á milli öruggra ríkja. Íslensk stjórnvöld hafa ítrekað nýtt sér reglugerðina til að senda flóttamenn til landa á borð við Grikkland, þar sem þeir stigu fyrst fæti á evrópska grundu.

Rósa segir að tilkynning von der Leyen séu stór tíðindi. „Við sem höfum verið að gagnrýna ónauðsynlega og ómanneskjulega notkun Dyflinnarreglugerðarinnar fögnum þessu,“ segir Rósa. Von der Leyen sé með þessu að reyna að koma ábyrgðinni af flóttamannavandanum í auknum mæli á aðildarríki í norðanverðri álfunni og frá þeim ríkjum við Miðjarðarhaf þangað sem nær allir flóttamenn koma til Evrópu.

„Það verða örugglega einhver aðildarríki sem munu mótmæla þessu, en vonandi verður þessi nýja stefna í móttökumálum ESB-landa samþykkt því það er ljóst að núverandi kerfi hefur ekki verið að virka, eins og ítrekaðar endursendingar ýmissa landa hafa sýnt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Freysteinn Guðmundur Jónsson: VG