Segir Benedikt hafa gert forystu Viðreisnar tortryggilega

Jón Steindór Valdimarsson.
Jón Steindór Valdimarsson. mbl.is/Eggert

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, segir að það hafi „hryggt mig meira en orð fá lýst“ að Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi ráðherra og formaður flokksins, „hafi valið þá leið að gera forystu og stofnanir flokksins tortryggilegar í kjölfar þess að hann fékk ekki vilja sínum framgengt við uppstillingar á lista“. 

Benedikt hefur sagt sig úr framkvæmdastjórn flokksins, en honum var ekki boðið oddvitasæti á lista flokksins fyrir komandi alþingiskosningar. 

Í langri færslu sem Jón birtir á Facebook vísar Jón til ummæla Benedikts í samtali við mbl.is í gær;  „Viðbótarsnúningur kom á þetta mál þegar Jón Steindór, sem hefur verið í flokknum frá upphafi, var færður úr líklegu sæti í suðvestur og yfir í ólíklegt sæti í Reykjavík norður. Reynt að slá fleiri en eina flugu í sama höggi,“ sagði Benedikt. 

„Hér virðist Benedikt, trúlega í misskilinni greiðasemi við mig, gera tortryggilegt að ég sé kominn úr öðru sæti í Suðvesturkjördæmi í annað sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður. Væntanlega vill hann benda á að hér sé illa farið með góðan dreng eins og hann af klíkuskap og klækjastjórnmálum forystu Viðreisnar – það er víðsfjarri öllum sannleika og bjarnargreiði við mig. Sama gildir um samsæriskenningar um að körlum hafi verið raðað í efstu sæti landabyggðarkjördæmanna til þess að útiloka að Benedikt fengi ósk sína uppfyllta um forystusæti í einhverju kjördæmanna þriggja á höfuðborgarsvæðinu,“ skrifar Jón. 

Geri það sem sé flokknum fyrir bestu 

Jón segist fullmeðvitaður um að það verði erfiðara verkefni að skipa annað sæti á lista flokksins í Reykjavík norður en að halda sig í Suðvesturkjördæmi. Það verkefni muni hann takast á við af fullum krafti, enda hafi hann sagt uppstillingarnefnd flokksins að ef það væri framgangi Viðreisnar fyrir bestu myndi hann gera það. 

Þá skrifar Jón að Benedikt hafi sagt að hugsjónir og stefna flokksins séu stærri en hagsmunir einstaklinga. Því sé hann sammála. 

„Ég vona og trúi að Benedikt sé enn sama sinnis. Þess vegna hef ég enga trú á öðru en að hann muni fyrr en seinna lýsa yfir fullum stuðningi við flokkinn sem hann átti svo stóran þátt í að skapa, hvetji allt sitt lið til þess að koma á fullu inn í baráttuna fyrir sameiginlegum hugsjónum og tryggi Viðreisn sem mest fylgi í komandi kosningum. Geri hann það ekki er ég hræddur um að eigin hagsmunir hans blindi honum sýn og hann sjái ekki lengur þá almannahagsmuni sem við ætluðum saman að setja ofar sérhagsmunum,“ skrifar Jón. 

 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina