„Ótrúlega stór og sorgleg afturför“

Lenya Rún Taha Karim, þingmaður Pírata.
Lenya Rún Taha Karim, þingmaður Pírata. mbl.is/Hákon

Nokkrir þingmenn stigu í pontu á Alþingi í morgun undir liðnum störf þingsins og ræddu um það bakslag sem átt hefur sér stað gagnvart hinsegin fólki hér á landi.

Lenya Rún Taha Kari, varaþingmaður pírata, hóf umræðuna í dag um þess mál og sagði;

„Efni þessarar ræðu er ekki eitthvað sem ég er að segja í fyrsta sinn en í þetta sinn hafa forsendurnar gjörbreyst. Það er með þungu hjarta að ég kem upp í pontu og ræði um bakslagið í hinsegin baráttunni og ég vænti þess að flestir séu meðvitaðir um atburði síðustu vikna og mánaða.

Erum að sigla inn í nýjan veruleika

Við erum að sigla inn í nýjan veruleika sem að ég hef aldrei upplifað áður. En orðræðan sem hefur kviknað og upplýsingaróreiðan sem ríkir er nákvæmlega sama orðræðan og var á níunda og tíunda áratugnum. Orðræðan ein og sér er ótrúlega stór og sorgleg afturför. Þegar fánar eru skornir niður, það er gelt og hrækt á fólk í gleðigöngunni og nú síðast var alvarleg líkamsárás sem allar líkur eru á að hafi verið hatursglæpur þá þurfum við að líta í eigin barm og spyrja okkur hvers vegna við sem sitjum hér á Alþingi höfum ekki gripið til aðgerða hingað til.

Í þessu samhengi er einnig nauðsynlegt að endurtaka sömu möntruna um tjáningarfrelsið en aðgerðir gegn haturstjáningu sem geta til dæmis verið í formi þessara misvísandi orðræðu sem hefur verið að kynda undir hatur og ofbeldi gegn hinsegin fólki er ekki aðför gegn tjáningarfrelsi fólks heldur er þetta réttlætanlegt inngrip á tjáningarfrelsi í því skyni að vernda réttindi annarra sem eiga undir högg að sækja,“ sagði Lenya Rún meðal annars í ræðu sinni.

Út með hatrið, inn með ástina

Brynhildur Björnsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði í ræðu sinni að öllum framförum fylgi bakslag.

„Árið 1987 þegar ég var 17 ára sagði besti vinur minn mér að hann væri hommi og hann hefði alveg eins getað sagt mér að hann væri geimvera. Svo framandi fannst mér að einhver sem ég þekkti gæti verið hinsegin. Ég gætti leyndarmál hans eins og sjáaldurs augna minna, vissi sem var að hann myndi mæta erfiðleikum og fordómum, jafnvel vera laminn á skólaballi ef upp um hann kæmist.

Brynhildur Björnsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.
Brynhildur Björnsdóttir, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Hallur Már

Mér verður alltaf hugsað til þessa þegar ég sé vagninn frá hinsegin félagsmiðstöðinni í gleðigöngunni. Hversu mikið hefur breyst, hvernig óvild breyttist í umburðarlyndi sem breyttist í viðurkenningu og loks í kærleika sem við sjáum einmitt að verki í gleðigöngunni þegar tugþúsundir koma saman og fagna fjölbreytileikanum. Verkinu er samt hvergi nærri lokið og þetta er ekki bara barátta hinsegin fólks heldur okkar allra. 

Öllum framförum fylgir bakslag og við finnum fyrir því, bæði á heimsvísu og hérlendis þar sem óvild, hatur og illkvitni gegn hinsegin fólki hefur færst í aukana. Við verðum að þétta raðirnar enn frekar og sýna hinsegin fólkinu okkar, hér og þar og allstaðar að við líðum ekki ofbeldi. Hvorki í orði né á borði,“ sagði Brynhildur sem að lok ræðu sinnar vitnaði í eitt þjóðskáld 21. aldarinnar með orðunum; Út með hatrið, inn með ástina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka