Ekki eins og aðdragandi síðustu gosa

Horft yfir Bláa lónið.
Horft yfir Bláa lónið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Miðja landrissins á Reykjanesskaga mælist nú rétt norðvestan við fjallið Þorbjörn, að sögn Benedikts Gunnars Ófeigssonar, sérfræðings Veðurstofunnar í jarðskorpuhreyfingum.

„Þetta er auðvitað nálægt starfsemi, nálægt orkuveri og ferðamannastað, þannig að við þurfum vissulega alltaf að hafa aðeins meiri viðbúnað þegar svo er,“ segir hann, spurður hvort sérfræðingar Veðurstofunnar hafi meiri áhyggjur af staðsetningu landrissins núna en í aðdraganda fyrri gosa.

„Við erum með þetta ágætlega vaktað og ættum nú alveg að sjá ef eitthvað fer í gang. En jú, það er alltaf meiri viðbúnaður þegar þetta er svona nálægt.“

Taka allar breytingar fastari tökum

Benedikt segir að meiri viðbúnaður þýði einfaldlega að meiri mannskapur fylgist með stöðu mála.

„Allar breytingar sem við sjáum tökum við fastari tökum og við reynum að vera meira á tánum. Það er fyrst og fremst það. Það munar meiru að vera með einhverja góða fyrirboða þegar svona margir eru í nágrenninu, ef það þyrfti að rýma."

Sjálfur var Benedikt ekki á eiginlegri vakt um helgina en var þó meira og minna að vinna að eigin sögn. 

„Það er hópur af fólki sem gengur vaktir en svo erum við hin, sem ekki erum að ganga vaktir, náttúrulega bara á fullu í ýmsu öðru. Þannig að við erum búin að vera meira og minna í vinnunni um helgina.“

Fylgst er vel með stöðu mála en kvikuinnskot er að …
Fylgst er vel með stöðu mála en kvikuinnskot er að finna undir Þorbirni.

Hraði landrissins stöðugur

Komið hefur fram að landið hafi risið mjög hratt en Benedikt segir það þó kannski ekki óvanalegt.

„Þetta byrjaði ansi hratt, við erum kannski ekki endilega alltaf að sjá það, þetta byrjar oft rólegar en það hefur dregið aðeins úr hraðanum síðan þetta byrjaði. Það var eins og þetta hefði allt í einu farið í gang og gerst með dálítið miklum hraða. Svo hefur eins og ég segi aðeins dregið úr honum og hann virðist stöðugur í bili.“

Þá segir hann að aðdragandi síðustu gosa sé ekki alveg sambærilegur við ástandið núna. 

„Þá vorum við að horfa á einmitt svona þenslu eða landris undir Fagradalsfjalli. Það sem gerist svo á einhverjum tímapunkti, er að þá byrjar kvikugangur sem brýtur sér leið inn í efri hluta skorpu og þá er hann að koma upp í tvo, þrjá kílómetra og það gerðist með miklum látum, mikilli jarðskjálftavirkni, og þar vorum við að horfa á færslur bæði á GPS-mælum og mikla skjálftavirkni sem tengdist því,“ segir hann.

„Við gátum fylgst svolítið vel með hvernig kvikan var að færast nær yfirborði og hvert hún var að fara.“

Ekki hefur orðið vart við álíka atburðarás að þessu sinni.

„Þannig að við erum ekki komin á einhvern þannig stað. Við höldum ekki að kvikan sé bara á leið til yfirborðs núna, eins og við sáum þegar kvikugangurinn fór í gang í þessi þrjú skipti í Fagradalsfjalli.“

Alveg nóg í bili

Spurður hvort kvikuinnskot sé að finna víðs vegar á svæðinu svarar Benedikt því til að það sé að finna á tveimur stöðum.

„Við erum með undir Fagradalsfjalli, þar sem við sjáum enn þá landris, að minnsta kosti í bili – það tekur smá tíma að sjá hvort það hafi breyst – og svo undir Þorbirni. Í bili erum við nú ekki að sjá fleiri svona svæði enda er þetta alveg nóg í einu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert