„Hvítabjörninn“ floginn til Colorado

Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir Langjökul í dag eftir að tilkynning …
Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir Langjökul í dag eftir að tilkynning barst um möguleg spor hvítabjarnar. mbl.is/RAX

Ráðgátan um möguleg spor hvítabjarnar á Langjökli, sem lögreglan á Vesturlandi fékk ábendingu um í gær, hefur að öllum líkindum verið leyst. Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir svæðið í dag til að leita af sér allan grun um að hvítabjörn væri á jöklinum. 

Ef marka má tilgátu Arngríms Hermannssonar, frumkvöðuls í jökla-og vetrarferðum fyrir erlenda ferðamenn, tilheyra sporin ekki hvítabirni, heldur bandaríska fjallaleiðsögumanninum doktor Jon Kedrowski. 

Á myndinni má sjá leiðina sem göngugarparnir tveir fóru, en …
Á myndinni má sjá leiðina sem göngugarparnir tveir fóru, en hún liggur þvert yfir Langjökul. Ljósmynd/Arngrímur Hermannsson

Klæddist „risastórum kuldaskóm“

Kedrowski var staddur uppi á Langjökli í síðustu viku ásamt félaga sínum Colin O'Brady þar sem þeir félagar æfðu sig fyrir gönguskíðaferð til Suðurskautsins. Þeir höfðu notið leiðsagnar Arngríms sem er einn reyndasti fjallamaður landsins. 

Í færslu sem Arngrímur birti á Facebook-síðu sinni í kvöld, gerir hann grein fyrir málavöxtum. Arngrímur gaf mbl.is góðfúslegt leyfi til að vitna í færsluna. 

„Jon fékk leigða skíðagönguskó sem að meiddu hann þannig að eftir tvo daga þá pakkaði hann skónum og fór í risastóra kuldaskó eins og þeir nota á Suðurskautinu þegar á að fara að tjalda. Jon er 194 cm á hæð og 83 kg og notar skó nr 48,“ segir í færslu Arngríms. 

„Hann þrammaði á þessum skóm næstu 4 daga um allan Langjökul...Nú er hann sloppin úr landi og floginn til Colorado með Icelandair, þar finnið þið Ísbjörninn,“ bætir hann við, en með færslunni lét Arngrímur fylgja mynd af leið göngugarpanna tveggja sem liggur einmitt þvert yfir Langjökul. 

Á myndinni má sjá þá Colin, Arngrím og Jon, sem …
Á myndinni má sjá þá Colin, Arngrím og Jon, sem Arngrímur telur vera eiganda sporanna sem sáust við Langjökul. Ljósmynd/Arngrímur Hermannsson

Lesa má færslu Arngríms í heild sinni hér að neðan. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert