Þorvaldur bendir á eina sviðsmynd til viðbótar

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, nefnir tektóníksar …
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, nefnir tektóníksar hreyfingar mögulega sviðsmynd á Reykjanesskaga. Samsett mynd

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir að ekki megi gleyma einni mögulegri sviðsmynd til viðbótar við þær sem nú þegar hafa verið í umræðunni.

Segir hann í samtali við mbl.is að það kunni að vera að um sé að ræða af stórum hluta það sem kallað eru tektónískar hreyfingar, sem sagt hreyfingar á misgenginu sem skilgreinir flekaskilin.

Hann segir erfitt að ráða í gögnin og líkir vangaveltum við hvort hafi komið á undan eggið eða hænan.

„Þessar tektónísku hreyfingar hafi þá myndað sprungur og þar sem kvika var til staðar í sprungunum hafa þær þá bara að hluta til fyllst af kviku.“

Mögulega tektónískar hreyfingar og minni goslíkur

Ármann Hösk­ulds­son, pró­fess­or í eld­fjalla­fræði við Jarðvís­inda­stofn­un Há­skóla Íslands, sagði í samtali við mbl.is í gær að kerfið væri að jafna sig eftir þau miklu átök sem áttu sér stað á föstu­dag. Sagði hann að á sama tíma sé verið að gera klárt í gos og með sama áfram­haldi ætti kerfið að vera orðið gott í gos eft­ir svona 10-20 daga.

Þorvaldur segir að þessi tilslökun sem Ármann nefni geti þá alveg eins bent til þess að um sé að ræða þær tektónísku hreyfingar sem gætu tengst þeirri sviðsmynd sem hann nefndi að ekki mætti gleyma. Að ekki séu kvikuhreyfingar að stjórna öllum brotunum heldur kannski meira flekahreyfingarnar.

Segir Þorvaldur að ef það sé raunin þá geti þessar tektónísku hreyfingar haldið áfram í einhvern tíma og svo fjarað út en þá séu enn minni líkur á að það gjósi.

„Það er bara erfitt að skilja þetta tvennt að. Þetta er dálítið eins og að velta fyrir sér hvort hafi komið á undan, hænan eða eggið.

Einhvers staðar varð það að byrja en það er erfitt að greina á milli því þetta er dálítið samtvinnað.“

Horft yfir hraunið við Grindavík og að Hagafelli, þar sem …
Horft yfir hraunið við Grindavík og að Hagafelli, þar sem gos þykir einna líklegast. mbl.is/Eggert Johannesson

Stór óvissa í tölunum

Bene­dikt Gunn­ar Ófeigs­son, sér­fræðing­ur Veður­stof­unn­ar á sviði jarðskorpu­hreyf­inga, sagði í samtali við mbl.is gær að kvikuflæðið væri talið vera um 75 rúm­metr­ar á sek­úndu inn í kvikugang­inn sem ligg­ur und­ir Sund­hnúkagígaröðinni og Grinda­vík.

Þorvaldur segir að honum sýnist rúmmálið byggja á útreikningum fremur en mælingum. Þannig sé erfitt að átta sig á hversu nákvæmar eða trúverðugar þær tölur séu. Það sé dálítið stór óvissa í þeim tölum. Hann segir að ef 75 rúmmetrar á sekúndu séu í raun að flæða inn í ganginn sé það dálítið mikið flæði.

„Ef við segjum að það séu 70 rúmmetrar á sekúndu síðan á föstudag úr þessu djúpa geymsluhólfi þá er búið að taka úr því svona 30-35 milljónir rúmmetra af kviku.

Það er helmingurinn af rúmmálinu sem þeir höfðu reiknað fyrir sylluna. Ef þetta er allt saman rétt er aukinn hraði í kvikuflæðinu núna miðað við áður og þá gætu atburðir gerst þeim mun hraðar.“

Ef flæðið er 75 rúmmetrar má búast við hraðari atburðarás

Þorvaldur víkur að útreikningum sem hann segist telja vera gerða með þeim hætti að syllan sé nokkurn veginn tæmd.

Meginþorrinn af kvikunni úr syllunni sé tekinn úr, sem hann segist halda að hafi verið reiknað um 70 milljónir rúmmetra. Svo útskýrir hann hvernig sérfræðingar hafi líklega framkvæmt útreikningana.

„Þeir hafa sennilega tekið hversu mikið landið seig yfir syllunni og svo rúmmálið og til þess að koma öllu því rúmmáli yfir í ganginn á þessum tíma frá föstudagskvöldinu og kannski eitthvað fram á sunnudag eða mánudag, þá þarftu að vera með flæði sem er um þúsund rúmmetrar eða meira á sekúndu.

Það er ekki flæðið að neðan en ef flæðið að neðan núna er 75 rúmmetrar á sekúndu þá er það 10 sinnum meira en var fyrir föstudaginn. Ef þetta er allt rétt þá getum við búist við hraðari atburðarás.“

Himinninn yfir Grindavík, sem augu þjóðarinnar hvíla nú á. Augu …
Himinninn yfir Grindavík, sem augu þjóðarinnar hvíla nú á. Augu jarðvísindamanna beinast á sama tíma að Hagafelli, norðan bæjarins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eldvörp gamall veikleiki

Þorvaldur segist hafa Eldvörp bak við eyrað sem hugsanlegan stað þar sem kvika geti brotist upp á yfirborðið en það er staðsetning sem Ármann hefur nokkrum sinnum nefnt sem þá líklegustu í sambandi við gos.

„Það er landlyfting sem nær þarna út eftir og ef þú horfir á inSAR-myndina þá var eins og syllan hafi lengst til vesturs í átt að Eldvörpum. Þannig að við getum held ég ekki útilokað þann möguleika.

Það sem er að gerast á þessu svæði, bæði við Sundhnúka og Grindavík, er að verið er að nota gamla veikleika. Eldvörpin er náttúrulega ein slíkur veikleiki.“

Útreikningar ekki betri en forsendurnar fyrir þeim

Þorvaldur segir að lokum að allar rúmmálstölur á kviku byggist á ákveðnum forsendum og þær séu ekkert betri en forsendurnar sem menn gefa sér fyrir þeim.

„Sama gildir um alla líkanreikninga eða hermanir. Þær eru bara eins góðar og forsendurnar sem þú hefur. Eins líka hversu vel jaðarskilyrðin eru skilgreind. Það er töluverð óvissa í þessu öllu saman.

Þess vegna er á þessu stigi erfitt að segja að það sé einhver ein ákveðin sviðsmynd sem er í gangi.

Ég held að við höfum alla vega þrjár mögulegar sviðsmyndir og við þurfum að horfa á þær allar og fylgjast með atburðunum til þess að reyna að átta okkur á því hver þeirra er í gangi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert