Óttast úthverfavæðingu Hafnarfjarðar

Oddvitar Framsóknarflokksins, Pírata, Miðflokksins og Viðreisnar í Hafnafirði.
Oddvitar Framsóknarflokksins, Pírata, Miðflokksins og Viðreisnar í Hafnafirði. mbl.is/Ágúst Óliver Erlingsson

 „Það sér það hver sem sjá vill að það er gríðarleg uppbygging í Hafnarfirði. Minnihlutinn gagnrýndi fólksfækkun og skort á uppbyggingu og kvartar nú yfir að innviðir standi ekki undir fjölguninni,“ segir Valdimar Víðisson, oddviti Framsóknarflokksins.

Haraldur R. Ingvason, oddviti Pírata í Hafnarfirði vill meiri samvinnu milli sveitarfélaganna. Til lengri tíma litið telur hann skynsamlegt að sameina Hafnarfjörð og nærliggjandi sveitarfélög.

Oddvitar Framsóknarflokksins, Pírata, Miðflokksins og Viðreisnar í Hafnarfirði tókust á í seinni pallborðsumræðum Dagmála vegna kosninga í Hafnarfirði.

Fimmtíu og fimm mínútna hverfi

Jón Ingi Hákonarson, oddviti Viðreisnar, telur helsta vandann leynast í því að Sveitastjórnir séu alltaf að bregðast við óvæntum aðstæðum með dramatískum aðgerðum. „Við þurfum að hugsa lengra, vera með stærra plan, þannig að sveiflurnar hafi minni áhrif.“

Með þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið undanfarna áratugi er Hafnarfjörður að verða úthverfi, að sögn Jóns Inga. Hverfi sem hafi átt að verða svokölluð „fimm mínútna hverfi,“ séu orðin „fimmtíu og fimm mínútna hverfi.“ Vísar hann þá einkum til Hamranessins.

Haraldur lýsir því hvernig bæjarbragur Hafnarfjarðar hreif hann þegar hann flutti þangað, þjónusta í göngufæri og fólk veigraði sér við að fara til Reykjavíkur. Honum þykir útþenslustefnan bagaleg og þróun uppbyggingar í bænum því stefna í ranga átt.

Skiptar skoðanir um Borgarlínu

Oddvitarnir voru ekki á eitt samstíga varðandi Borgarlínuna. Jón Ingi segir Borgarlínuna frábært verkefni, en Borgarlínan og þétting byggðar séu tvær hliðar á sama tenging. Hann játar að það sé óþekkt stærð, hvenær Borgarlínan komi til Hafnarfjarðar, en vill engu að síður setja tuttugu milljónir króna í undirbúningsvinnu. „Til þess að vera tilbúin þegar kallið kemur.“

Sigurður Þ. Ragnarsson, oddviti Miðflokksins spyr hvernig eigi að fjármagna þessar framkvæmdir. „Það er ábyrgðarlaust að tala um Borgarlínu þegar það eru engir peningar til.“ Að auki þykir honum með öllu óljóst hvað sé átt við þegar talað sé um borgarlínuna.

Valdimar bendir á að í samgöngusáttmálanum sé að finna fleiri atriði en Borgarlínuna. „Framsóknarflokkurinn talar fyrir góðu jafnvægi milli einkabílsins og Borgarlínunnar.“

Gagnrýniverð vinnubrögð

Jóni þykir vinnubrögð meirihlutans hafa verið gagnrýniverð við töku stórra ákvarðana, sér í lagi meðferð fjármagns.  „Í upphafi þessa kjörtímabils var knatthús FH reist, einhvernvegin tókst meirihlutanum að búa til afskaplega mikið deilumál um meðferð málsins.“ Í skjóli valds, nálgist meirihlutinn verkefni sem þetta líkt og þau komi minnihlutanum ekki við.

Valdimar sagði að þó það mætti líklega gagnrýna vinnubrögð þá hafi risið knattspyrnuhús. „Sennilega það ódýrasta á landinu og fyrir alla þessa iðkendur.  

mbl.is