Gylfi: Væri mjög sætt að skora og stela þessu (myndskeið)

„Þetta er einn af stærstu leikjunum. Stemningin á vellinum bæði heima og á Anfield er sérstök. Það eru gríðarlega mikil læti og mikið undir,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Everton og íslenska landsliðsins, í samtali við Tómas Þór Þórðarson á Símanum sport fyrir leik Liverpool og Everton í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta klukkan 20:15. 

Tímabilið hjá Everton er búið að vera erfitt og tapaði liðið fyrir Leicester í síðasta leik þar sem sigurmarkið kom í uppbótartíma. 

„Þetta er búið að ganga upp og niður, mestmegnis niður á tímabilinu. Það hefur verið okkar veikleiki að spila ágætlega í leikjum og tapa þeim. Það var grátlegt að fá þetta mark á okkur á 92. mínútu og tapa.“

Gylfi hrósaði Liverpool-liðinu. 

„Það er erfitt að stoppa leikmennina hjá þeim. Þeir eru með 4—5 sem eru í heimsklassa fram á við og sterkir í vörn líka. Þetta er heilsteypt lið og góð liðsheild. Þetta verður erfiður leikur fyrir okkur,“ sagði Gylfi, sem bætti við að hann vonaðist til að skora og vinna 1:0 í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert