Þurfti að fara í heimsókn til að fá sætindi

Rafn Franklín Hrafnsson er byrjaður með hlaðvarpsþáttinn 360° Heilsa.
Rafn Franklín Hrafnsson er byrjaður með hlaðvarpsþáttinn 360° Heilsa.
Rafn Franklín Hrafnsson er einkaþjálfari og heilsuráðgjafi. Það má segja að hann sé alinn upp í líkamsræktarstöð því foreldar hans eru Ágústa Johnson framkvæmdastjóri Hreyfingar og Hrafn Franklin Friðbjörnsson heitinn. Rafn Franklín var 15 ára þegar hann missti pabba sinn og segir hann að það hafi mótað hann mikið. Ekki síst í líkamsræktinni.  
Eftir að hafa starfað sem einkaþjálfari í nokkur ár ákvað Rafn Franklín að byrja með hlaðvarpið 360° Heilsa. Í þáttunum er hans helsta markmið að dreifa þeim boðskap að hver og einn sé sinnar gæfu smiður og fólk geti sjálft stýrt eigin heilbrigði með ákvörðunum sínum. 

Lífsstílsþættir hafa gríðarlegan mátt þegar kemur að því að halda líkamanum heilbrigðum og þegar fólk byrjar að taka ábyrgð á eigin heilbrigði þá geta magnaðir hlutir gerst. Heilbrigðisgeirinn er að mínu mati rosalega hólfaskiptur. Við erum með breiðan hóp sérfræðinga á niðurnjörvuðum sviðum. Það eru hins vegar fáir sem horfa á heildarmyndina eða 360° heilsu. Öll kerfi líkamans eru samtengd og öll hafa áhrif á hvert annað. Sem dæmi, meltingarvandamál geta haft áhrif á andlega heilsu og öfugt,“ segir Rafn Franklín.

Í þættinum fær hann til sín sérfræðinga á mismundandi sviðum sem hann spyr spjörunum úr. 
 
„Inn á milli koma síðan þættir þar sem ég sjálfur deili bæði þeirri þekkingu sem ég hef sankað að mér ásamt því að svara spurningum hlustenda.“
 
Nú ertu alinn upp af einni þekktustu leikfimisdrottningu Íslands. Hvernig uppeldi fékkstu? 
„Í stuttu máli þurfti ég að fara í heimsókn til vina minna ef ég ætlaði að komast í einhver sætindi. Það var sjaldan til óhollusta á heimilinu en í þau fáu skipti sem til dæmis matarkex eða eitthvað álíka óspennandi var keypt þá var pakkinn yfirleitt kláraður samdægurs. Mikið var lagt upp úr hollum mat sem mér fannst á þeim tíma frekar óþolandi en ætli ég búi ekki að því í dag. 
 
Hvað líkamsrækt og hreyfingu sjálfa varðar var það stimplað inn í mig hversu mikilvæg hreyfing væri fyrir heilbrigði. Það var regla á heimilinu að stunda íþróttir og ég hef því örugglega prófað nánast allir íþróttir undir sólinni. 
 
Ég er ekki mikið fyrir hóptíma sjálfur, en ég hef örugglega setið flesta hóptíma landsins þar sem ég man eftir mér sem litlum gutta sitjandi á gólfinu að fylgjast með mömmu og pabba sprikla á pöllunum. Það var þó ekki fyrr en í kringum tímann sem pabbi dó þar sem ég fann mína syllu í líkamsrækt og það var í kraftlyftingum. 
 
Síðastliðin ár hefur síðan kviknað hjá mér meiri áhugi á andlegum þáttum heilsu. Ætli áhuginn á sálfræði og mannlegu eðli komi þá ekki frá pabba en hann fór frá hóptímakennslu yfir í dýpri sálma og lærði sálfræði. Það mætti því segja að ég hafi fengið besta frá þeim báðum, sem hefur nýst mér vel og komið mér á þann stað sem ég er í dag,“ segir hann. 
 
Hvað leggur þú áherslu á í þinni þjálfun?
„Sama hvert markmiðið er hjá þeim sem sækja til mín í þjálfun, þá set ég mína grunnþætti heilsu alltaf sem áherslu númer eitt eða hreyfing, mataræði, svefn og jafnvægi.
 
Þetta eru þættir sem ég fer nánar út í í fyrsta hlaðvarpsþættinum mínum sem heitir, Hvað er 360° Heilsa?
 
Þetta eru að mínu mati grunnstoðir langvarandi árangurs, sama hvert markmiðið er. 
Ef þú missir heilsuna þá fara yfirborðskenndari hlutir eins og „sixpack“, flatur magi, fituprósenta og íþróttahæfileikar fljótlega að skipta minna máli og allur fókus fer í það að ná aftur heilsunni. 
 
En þegar heilsan er þitt meginmarkmið þá verður gott líkamsform, lægri fituprósenta, aukin orka og vellíðan yfirleitt jákvæð aukaverkun af því markmiði.“
 
Á hverju er fólk oftast að klikka þegar kemur að heilsurækt? 
„Það er held ég alltaf sama sagan. Átak. Fólk mætir í ræktina með skammtímasjónarmið og út frá röngum forsendum. Í stað þess að mæta í ræktina út af væntumþykju og virðingu fyrir eigin líkama mætir fólk frekar til að refsa sér fyrir „syndir fortíðarinnar“,“ segir Rafn Franklín og dregur ekkert undan. 
 
Hvað með allt þetta próteinduft og pre workout. Hvað finnst þér um það? 
„Þessi efni, eins og öll önnur fæðubótarefni eru bara tól. Tól sem sumir þurfa kannski meira að nýta sér en aðrir, fer eftir markmiðum. Megnið af próteindufti og pre-workoutum á markaðnum í dag eru að mínu mati hins vegar bara drasl. Gervikokteilar, blandaðir með gæðalítilli næringu og vafasömum gerviefnum sem eru líklegast að gera líkamanum meira slæmt en gott.
 
Skrokkurinn er ekki gerður til að vinna á dufti og pillum og því er alltaf best að mínu mati að fá orku og næringu úr alvörumat þegar kostur er á.“
 
Vilja flestir sem koma til þín léttast eða? 
„Ég myndi ekki endilega segja það. Einhverjir vilja aðstoð í tengslum við íþróttina sína eða eitthvað slíkt eða fá kennslu í líkamsbeitingu í lyftingum eða kraftlyftingum. 
Sumir vilja einblína á almenna heilsu eða fá aðstoð við að vinna á heilsufarsvandamálum og síðan eru alltaf einhverjir sem vilja bara missa fitu og fá „six pack“ eða flatan maga. 
 
Hver er árangursríkasta leiðin til þess? 
„Það eru svo sem margar árangursríkar leiðir að því að léttast. En ef langtímaárangur er markmiðið ætti fókusinn alltaf að vera á að rækta heilsuna fyrst og fremst og þá að öllum líkindum mun gott líkamsform verða jákvæð aukaverkun af því. 
 
Annars ef ég þyrfti að setja þetta í þrjú svona almenn skref þá væri það líklegast:
Nr. 1 - Lágmarkaðu sykurneyslu og borðaðu alvörumat (því minna unninn því betra).
Nr. 2 - Hreyfðu þig eins mikið og þú getur, ekki endilega líkamsrækt bara hreyfa skrokkinn.
Nr. 3 - Komdu púlsinum reglulega upp. Styrktarþjálfun og lotuþjálfun finnst mér frábær leið til að ýta undir aukna fitubrennslu.
 
Hvað drífur þig áfram í þinni vinnu?
„Það sem drífur mig áfram í minni vinnu og í lífinu er einfaldlega að verða betri í dag en í gær. Ég veit ekki hvað það er nákvæmlega en ég hef þessa óseðjandi þörf til þess að verða betri útgáfa af sjálfum mér. Þetta verður til þess að ég eyði nánast öllum mínum frístundum í að lesa mér til og bæta við mig þekkingu. Það sem keyrir mig áfram er síðan að geta haft jákvæð áhrif á líf fólks og hjálpað þeim að ná betri tökum á líkamsrækt, heilsu og lífinu almennt, með því að miðla þeirri þekkingu sem ég hef sankað að mér.“
 
Hvað myndir þú segja að væri mest inn í heilsurækt í dag?
 
„Góð spurning. Hvað heilsu varðar þá er það klárlega þarmaflóran, eins „spennandi“ og það kann að hljóma fyrir mörgum. Það er alltaf að koma meir og meir í ljós hvað þarmaflóran og bakteríur þarmaflórunnar leika gríðarlega stórt hlutverk þegar kemur að heilsu, bæði andlegri og líkamlegri. Og við erum rétt að klóra í yfirborðið á þeim fræðum.
 
Hvað líkamsrækt varðar, finnst mér fólk vera að opnast meira fyrir mismunandi leiðum til að þjálfa líkamann. Það eru þá hlutir eins og sjósund, kuldaþjálfun, náttúruhlaup, fjallahjól, gönguskíði, hreyfiflæði og fleira sem fólk er farið að sækja í meira. En ég veit ekki hvort það sé eitthvað eitt mest „inn“ í dag. Crossfit er náttúrulega gríðarlega vinsælt og hefur algjörlega breytt líkamsræktar menningunni um allan heim. Sem ég held að sé klárlega jákvæð breyting að mörgu leyti þar sem til dæmis meira er orðið um það sem kallast „functional training“ eða þjálfun sem líkist meira náttúrulegum líkamshreyfingum og daglegum athöfnum.“


mbl.is