Meyjan: Þú þarft að vera varkár og á verði

Elsku Meyjan mín,

þú ert svo hjartahlý og vel af Guði gerð. Þú verður bara að læra að skilja það betur sjálf. Tækifærin felast í hverju einasta andartaki og stundum á maður ekki að láta alla vita hvaða skref er næst. Það er eins og þú búir á eldfjallasvæði. Þú þarft að vera varkár og á verði og þó einhver lítil gos gjósi í kringum þig. Þetta er nefnilega eitthvað sem getur nýst þér mun betur en þú getur ímyndað þér.

Ástin getur flækst fyrir þér ef þú veist ekki hvað þú vilt í raun. Ef það eru einhverjar miklar flækjur skaltu ákveða þig hvort þú ætlir að halda eða sleppa. Því annars tekur það yfir orkuna þína ef þú tekur ekki ákvörðun. Það er alveg sama hvað verður fyrir valinu því það mun blessast, en hafðu þetta alveg á hreinu.

Þú ert að fara inn í afslappaða tíma sem endurnýja hverja einustu frumu í líkamanum á þér og gefa þér andlegan styrk til þess að standa upp og mæta öllu því amstri sem verður á vegi þínum.

Ég dró fyrir þig tvö spil úr spilabunka sem ég hef notað síðustu 14 ár, hreinir töfrar, en þessi spil eru eftir miðil frá Englandi. Spilið sem ég dró segir: Ástin byrjar og svo kom spilið: Nýtt upphaf sem er tengt því. Það kemur líka tákn um að hjartaorkan þín sé að stækka og þar af leiðandi einlægnin að eflast. Tengt þessu spili er talan fjórir, en hún segir þú hafir þrjósku, afl og getu til að opna sólríkar dyr.

Það er eins og þú finnir á þér í framhaldi af þessu hvað þú eigir að gera. Þú átt eftir að fara í óvenjulegt eða athyglisvert ferðalag sem breytir svo mörgu í kringum þig. Hvort sem það er stutt eða langt skiptir ekki máli, því innihald ferðalagsins er það sem gefur ávöxt.

Kossar og knús,

Sigga Kling

mbl.is