Vogin: Þú framkvæmir meira en flestir

Elsku Vogin mín,

þú hefur farið í gegnum svo gott og sterkt þroskaskeið undanfarna tólf mánuði. Þú hefur sett þig í miklu betri stellingar gagnvart því þótt eitthvað fari ekki nákvæmlega eins og þú vilt. Það er svo mikið æðruleysi að hellast yfir þig, svo þú færð mikið vit til þess að greina svo vel á milli þess sem þú getur breytt og þess sem þú hefur enga stjórn á.

Þú ert með öra hugsun og ferð yfirleitt alltaf stuttu seinna yfir í það sem hugurinn hefur gefið þér mynd af. Þar af leiðandi framkvæmir þú og gerir mun meira en flestir. Og það geta orðið til sterk dómínóáhrif af einhverju sem þú ert að hreyfa við núna. Því eitt leiðir af öðru og þú nýtir kraftinn þinn svo miklu betur og réttar en áður fyrr, því þú ert búin að grafa reiðina sem stundum hefur skotið upp kollinum að mörgu leyti sökum óþolinmæði.

Þú reiknar út og sorterar rétt, alveg eins og að hengja upp sokka, setur upp eitt par í einu og ef einn er aukalega, seturðu hann bara til hliðar eða í sérstakt box. Þannig greiðirðu úr þeim flækjum sem öðrum gætu þótt erfiðar, en þér þykir létt, því þú ert löngu búin að finna hvernig þú ætlar að fara að þessu.

Það er eitthvað mikið streymi af peningum, þú ávaxtar eitthvað eða færð til baka og það verða mun hærri upphæðir en þú bjóst við. Og sú braut á eftir að halda áfram, en peningarnir koma trúlega ekki úr þeirri átt sem þú bjóst við, svo þetta verður spennandi.

Það fer þér best að vera í góðu ástarsambandi og þar þarftu að setja þolinmæði í forréttinn og leyfa hinum krásunum að koma á eftir. Það er líka ástarorka í kringum þá sem eru á lausu eða einir. En þá verður þú líka að nenna, vilja og að leyfa öðrum að tengjast þér af alvöru. Ástin verður erfiðleikunum yfirsterkari, alltaf.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál