Tvíburinn: Þú hefur haft óþarfa áhyggjur

Elsku Tvíburinn minn, þú ert að fara inn í tíma þar sem kærleikurinn verður þitt sterkasta vopn. Og þú átt eftir að umfaðma vini og líka þá sem þér finnst ekkert sérstakir vinir. Lykillinn þinn til að leysa vandamálin, hvort sem það tengist fjölskyldu, fjármálum eða ást, er að ausa út kærleikanum hægri og vinstri. Og þegar þú ferð í þennan gírinn verðurðu eins og uppljómaður, því það er svo margt í lífinu byggt upp á Karma og er þar af leiðandi eins og búmerang. Þannig að þegar þú gefur fegurð, mun fegurðin og kærleikurinn einblína á þig.

Þú hefur haft óþarfa áhyggjur af svo mörgu og það virðist vera að það sem þú hefur mestar áhyggjur af gangi 100% upp. Hugur þinn og útgeislun eru tveir þættir sem nauðsynlegt er að samræma, því það sjá það allir þegar þú er ekki í þínum dásamlega gír.

Þú átt eftir að verða tilbúinn til að gefa þig allan í starf sem er innihaldsríkt og uppörvandi bæði fyrir þig og aðra. En þú getur lent í því að þurfa að takast á við tvö eða fleiri störf eða verkefni á sama tíma og jafnvel fleiri en þú bjóst við. Þú elskar að vera á tánum og vinnur langbest undir pressu eða stressi og núna ertu að bruna í átt að næsta ævintýri.

Ekki vera feiminn með hugmyndir eða leyndarmál, ræddu bara við þann sem þú treystir og þú veist að mun hvetja þig áfram, frekar en þann sem gerir lítið úr því sem þér finnst mikilvægt. Það skiptir ekki máli hversu mikið þú ert elskaður, samt hefur þunglyndi og einsemd náð tökum á þér inn á milli. Þegar þú finnur, tilfinningaríki Tvíburinn minn, að eitthvað slíkt hefur náð tökum á þér, skaltu gera eitthvað í því strax!

mbl.is