Fiskarnir: Umvafin ást og gleði

Elsku Fiskurinn minn, þú ert svo margslunginn. Annaðhvort elskarðu breytingar eða þolir þær ekki og þarft að hafa skoðun á öllu sem þér tengist og öllum. Það býr mikil fórnfýsi og stundum viltu líka vera fórnarlamb, því að vera venjulegur er eitur í þínum beinum.

Þú ert svo mikil tilfinning að það er næstum þannig þú þurfir lyf við því. Þú ert tólfta merki dýrahringsins og hefur þann sérstaka kost að búa yfir eiginleikum hinna merkjanna. Hættu að horfa á líf þitt með röntgenaugum og farðu að lifa með kaldhæðninni og húmornum sem gerir þig svo einstakan. Þú þolir illa öll höft, og þú ert á því tímabili að þú munt slíta þau af þér og hugsa svo: „Ég hefði ekki trúað að þetta væri svona auðvelt!“

Þú ert í björtum og skemmtilegum tíma þar sem þú verður umvafinn ást og gleði, ferðast meira en þú bjóst við og byggir þig upp, hvort sem það hefur verið líkamleg eða andleg heilsa sem hefur hrjáð þig.

Þú verður svo lausnarmiðaður að ríkisstjórnin og önnur stærri fyrirtæki ættu að ráða þig í vinnu. Þegar líða tekur á sumarið þá færð þú tilboð eða boð um samninga eða verkefni sem þú hefur verið að hugsa um, en bjóst ekki við þeim, allavega ekki í náinni framtíð.

Lífið og gjafirnar eru að færast þér nær og þú ert svo fallegur þegar þú ert ástfanginn. Ef þér finnst þig vanta partner, þá er ekki ólíklegt að í einhverju boðinu eða ferðalagi í gegnum sérkennilegan stað að einhver fullkominn bíði þín, sem passar þér fullkomlega. Engin ástartilfinning er eins, svo ekki leita að því sem þú hafðir einhvern tímann, heldur bjóddu nýjar tilfinningar velkomnar. Það er undir þér að finna þína tvíburasál, ef þú ert ekki nú þegar kominn með hana.

mbl.is