Hrúturinn: Kraftmikið tímabil

Elsku hjartans Hrúturinn minn, lífið er alls konar og þess vegna er það skemmtilegt. Þér hefur fundist margt erfitt undanfarið og hlutirnir ekki nákvæmlega eins og þú vildir stýra þeim. Slepptu tökunum á því sem er að pína þig og leyfðu alheimsvitundinni að hjálpa þér að leysa hlutina á sem bestan hátt.

Það hefur verið svo sterkt og máttugt tímabil að þér getur fundist eins og þú sért snigill á hnífsblaði. Þú þarft að spá í allt sem þú segir og framkvæma ekki stóra hluti án þess að hafa hugsað málin vel áður.

Þú hefur viturt og sterkt innsæi sem þýðir bókstaflega að sjá inni í sér hvað þú átt að gera. Svo að þú þarft að vera eins og lipur snigill til þess að hafa alla góða. Þú munt taka út friðarsinnann sem er svo sannarlega þú og munt tengja saman fólk og breyta hringrásinni í kringum þig. Fyrst öðrum til góðs, svo þér bæði til góðs og gleði.

Þetta er öflugt og kraftmikið tímabil sem þú ert að ganga inn í. Það er fullt tungl í Hrútsmerkinu hinn 20. október og þá sérðu svo góða útkomu í öllu því sem þú hefur verið að plana og getur verið svo ánægður með sjálfan þig og það sem þú vilt ná árangri í. Þolinmæði er ekki þín sterkasta hlið, svo núna á þessu tímabili á alveg sérstaklega vel við: Þolinmæði þrautir vinnur allar.

Hafðu skilning og þolinmæði á ástinni, fyrirgefðu yfirsjónir og ekki tuða í þeim sem þú elskar. Þeir ykkar sem þrá ástina hafa regnbogann yfir sér og þá er akkúrat tími til að óska sér. Vertu viss um hvað þú vilt og í því þarftu að greina á milli hvort ástin sé ást eða spennutryllir.

mbl.is