Þurfum á hjálp að halda

„Við áttum undir högg að sækja í seinni hálfleik en sem betur fer áttum við markmann sem var í toppstandi og við héldum hreinu. En þetta var ekki okkar besti leikur,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, eftir 2:0 sigur þeirra gegn Fjölni í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld.

„Mér fannst við stjórna fyrri hálfleiknum en vorum ekki að finna mikið af glufum þar sem við fengum nokkra hálfsénsa. Stundum falla hlutirnir með þér, það mun ekki gera það í allt sumar en ég vil meina að við vorum ekki lakari aðilinn í leiknum. Við áttum skilið að sigra, en kannski ekki að halda hreinu,“ sagði Arnar, en Gunnleifur Gunnleifsson bjargaði oft meistaralega í marki Blika.

Arnþór Ari Atlason lék í stöðu framherja í kvöld og Arnar fór ekki leynt með það að liðið er í leit að senter. „Það er vitað að við erum að leita að styrkingu fram á við. Vonandi getum við kynnt einhvern en í dag er ekkert öruggt og það er sennilega best að segja sem minnst, en ég vona að það komi einhver inn sem getur hjálpað okkur því við þurfum á því að halda,“ sagði Arnar, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka