„Gekk of hægt hjá okkur

Heimir Guðjónsson
Heimir Guðjónsson Ljósmynd/Kristinn Magnússon

Síðast þegar Heimir Guðjónsson var staddur með FH á Akureyrarvelli þá var hann að fagna fyrsta Íslandsmeistaratitli félagsins og þá sem fyrirliði liðsins. Þetta var árið 2004. Í dag kom hann með lærisveina sína í heimsókn til KA og gerðu liðin markalaust jafntefli í fremur daufum leik.

Heimir var spurður út í leikinn og annað skemmtilegt eftir leik.

Það er mikið leikjaálag á ykkur þessa daganna. Telur þú að það hafi komið niður á leik liðsins í dag?

„Nei, ég held ekki, miðað við hvernig leikurinn var. Þetta var hvorki hraður, né harður fótboltaleikur þannig að menn geta varla verið mjög þreyttir eftir þetta en allt gekk of hægt hjá okkur. Það gekk ekkert að brjóta niður vörnina þeirra. Þeir spiluðu öflugan varnarleik og við náðum ekki að opna þá að neinu viti.“

Nú þarf ég að rifja upp viðtal sem ég tók við þig á þessum sama stað fyrir þrettán árum. Þá varstu að fagna fyrsta Íslandsmeistaratitlinum í sögu félagsins og sagðir við mig, eflaust meira í gríni en alvöru, að risinn væri vaknaður. Þú hittir þar naglann á höfuðið. Er ekki stefnan að vera áfram með besta lið landsins?

„Það er alltaf stefnan að standa sig vel og keppa um titlana sem eru í boði. Það hefur sýnt sig í gegnum árin að ef svo á að vera þá kostar það mikla vinnu. Menn þurfa að vera tilbúnir að leggja hart að sér til að viðhalda velgengni. Ég er ánægður með þetta hjá þér að rifja þetta upp. Ég var búinn að gleyma því hvaðan þetta kom.“

Þú hefur svo ekkert fengið að koma á Akureyrarvöll síðan þá.

„Nei það passar. Það er gaman að vera kominn aftur. Völlurinn er frábær og veðrið fínt. Þetta var allt saman bara mjög gott, nema úrslitin.

Þið eigið leik við Val á þriðjudaginn. Er titillinn farinn ef þið vinnið ekki þann leik?

„Já, pottþétt. Við erum langt á eftir þeim og langsótt að við getum náð þeim. Valsmenn þurfa að klúðra ansi miklu ef þeir ætla ekki að hafa þetta í ár. Fyrsta skrefið í því væri að tapa fyrir okkur og að sjálfsögðu ætlum við að vinna þann leik og hleypa smá spennu í þetta“ sagði Heimir, dreyminn á svip, greinilega kominn á vit minninga frá því fyrir þrettán árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert