HK upp að hlið Hauka

Hörður Ingi Gunnarsson og Harrison Hanley eigast við í Kórnum ...
Hörður Ingi Gunnarsson og Harrison Hanley eigast við í Kórnum í kvöld. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

HK er komið upp að hlið Hauka í Inkasso-deildinni, 1. deild karla í knattspyrnu, eftir 2:0-heimasigur á Hafnarfjarðarliðinu í kvöld. Liðin eru nú í 4. og 5. sæti, bæði með 30 stig.

HK-ingar byrjuðu á miklum krafti og fóru fyrstu 20 mínúturnar að mestu fram á vallarhelmingi Hauka. Eftir því sem leið á hálfleikinn komust Haukar meira inn í leikinn en það gekk illa hjá báðum liðum að skapa sér alvörufæri.

HK fékk þó eitt slíkt undir lok fyrri hálfleiks þegar Sindri Scheving braut klaufalega á Ásgeiri Marteinssyni innan teigs. Bjarni Gunnarsson fór á punktinn en Terrance Dieterich varði frá honum. Bjarni var hins vegar fljótur að átta sig og skoraði hann úr frákastinu. Leikmenn Hauka voru æfir og vildu meina að Bjarni hafi brotið af sér á leið að boltanum. Einar Ingi Jóhannsson lét hins vegar markið standa og voru heimamenn því marki yfir í hálfleik, 1:0.

Seinni hálfleikurinn var ansi rólegur og fékk hvorugt liðið alvörufæri þangað til á 75. mínútu. Þá komst Brynjar Jónasson inn fyrir vörn Hauka en Dieterich varði mjög vel frá honum. Tveimur mínútum síðar kom Bandaríkjamaðurinn hins vegar engum vörnum við. Reynir Már Sveinsson tók á skot utan teigs og hafði boltinn viðkomu í varnarmanni áður en hann fór í bláhornið. Varamaðurinn Axel Sigurðarson sendi boltann á hann eftir að hafa leikið á nokkra varnarmenn.

Eftir markið róaðist leikurinn aftur og náði hvorugt liðið að skapa sér alvöru færi og var 2:0 sigur HK því staðreynd.Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is. 

HK 2:0 Haukar opna loka
90. mín. Leik lokið HK tekur stigin þrjú og liðin eru nú jöfn í 4. og 5. sæti með 30 stig.
mbl.is