Valsmenn þurfa að bíða lengur

Meistaraefni Valsmanna í Pepsi-deild karla í fótbolta mættu til Akureyrar í dag þar sem leikur gegn KA beið þeirra. Úr varð hörkuslagur þar sem lítið var gefið eftir. Lauk leiknum með 1:1 jafntefli og má segja að Valsmenn hafi sloppið ágætlega með þau úrslit þar sem KA-menn voru að skapa mun betri og fleiri færi.

Staðan eftir fjörugan fyrri hálfleik var 0:0 en KA-menn fengu tvö upplögð marktækifæri  í hálfleiknum sem þeir fóru illa með. Í öðru tilvikinu var Hallgrímur Mar búinn að spæla Valsvörnina en skot hans fór í höfuðið á Hauki Páli Sigurðssyni sem fórnaði sér eins og sannur fyrirliði. Þurfti Haukur Páll að yfirgefa völlinn skömmu síðar vegna höfuðáverka.

KA-menn voru töluvert sterkara liðið í seinni hálfleik og þeir skoruðu strax í honum. Var markið einkar laglegt. Það skoraði Elfar Árni Aðalsteinsson með geggjuðum flugskalla, 1:0.

Norðanmenn virtust ætla að bæta við marki og skall hurð nærri hælum við Valsmarkið í nokkur skipti. Það kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar Valur skoraði um miðjan hálfleikinn.

Guðmann Þórisson braut á Nicolas Bogild inni í teig og Guðjón Pétur Lýðsson skoraði af miklu öryggi úr vítinu sem dæmt var, 1:1. Leikurinn var svo þrælspennandi allt til loka en ekki komu fleiri mörk.

Ljóst er að Valsmenn verða ekki Íslandsmeistarar í dag þar sem FH vann leik sinn gegn Víkingum í Fossvoginum. Stjarnan spilar svo seinna í kvöld og geta Garðbæingar saxað á forskot Vals sem nú er tíu stig. Vinni Stjarnan leik sinn minnkar munurinn á liðunum í sjö stig þegar þrjár umferðir eru eftir og níu stig í pottinum. FH er svo enn með í baráttunni. Þeir eru tíu stigum á eftir Val en eiga fjóra leiki eftir. 

Valur er með 41 stig og hefur leikið einum leik meira en Stjarnan og FH sem eru með 31 stig. KA er með 25 stig og fer uppfyrir Grindavík og í 5. sætið. Hvernig sem aðrir leikir fara geta Valsmenn tryggt sér titilinn á heimavelli á sunnudagskvöldið þegar þeir fá Fjölni í heimsókn.

KA 1:1 Valur opna loka
90. mín. Leik lokið +4 Hörkuleikur og ef eitthvað er þá geta KA-menn verið svekktari með þetta jafntefli en Valsmenn.
mbl.is