Ísland mætir tveimur liðum Indónesa

Landsliðið á æfingu í Indónesíu.
Landsliðið á æfingu í Indónesíu. Ljósmynd/KSÍ

ísland og Indónesía mætast í fyrsta skipti á knattspyrnuvellinum í dag þegar þjóðirnar eigast við í vináttulandsleik í borginni Yogyakarta. Viðureignin hefst klukkan 11.30 að íslenskum tíma sem er 18.30 að staðartíma í fjórða fjölmennasta ríki heims.

Engir af fastamönnum Íslands eru með en reyndustu menn liðsins eru Ólafur Ingi Skúlason, Arnór Smárason og Arnór Ingvi Traustason og þá eru sex nýliðar í hópnum sem gætu fengið sitt fyrsta tækifæri með A-landsliðinu í dag. Það eru Andri Rúnar Bjarnason, Hilmar Árni Halldórsson, Mikael Anderson, Samúel Kári Friðjónsson, Felix Örn Friðriksson og Anton Ari Einarsson.

Indónesar tefla fram tveimur mismunandi liðum í leikjunum tveimur. Þeirra landslið sem var valið af spænska landsliðsþjálfaranum Luis Milla, fyrrverandi leikmanni Real Madrid og Barcelona, mætir Íslandi í seinni leiknum á sunnudag.

Liðið sem mætir Íslandi í dag var hinsvegar valið af knattspyrnuáhugamönnum í netkosningu og í því eru nokkrir reyndir leikmenn sem hafa spilað með landsliðinu á undanförnum árum. Í liðin vantar þó leikmenn frá Bali United sem hafnaði í öðru sæti indónesísku deildarinnar 2017 og er að fara í forkeppni Meistaradeildar Asíu. Níu leikmenn Bali United léku með landsliðinu á síðasta ári.

Indónesar voru í banni hjá FIFA

Indónesar eru í 162. sæti á heimslista FIFA en besta staða þeirra þar var 87. sæti árin 2001 og 1998. Versta staðan var aftur á móti 179. sætið árið 2015. Ef horft er til Asíu eru þeir í 31. sæti af þeim 46 FIFA-þjóðum sem eru í álfunni.

Þeir hafa ekki leikið mótsleiki um skeið. FIFA setti Indónesíu í bann árið 2015 vegna afskipta stjórnvalda í landinu af deildakeppninni. Fyrir vikið fengu Indónesar ekki að taka þátt í undankeppni HM 2018 og heldur ekki í Asíubikarnum 2019 en undankeppni þess mót stendur nú yfir. Banninu hefur hinsvegar verið aflétt.

Ísland er fyrsta Evrópuþjóðin sem Indónesar mæta í fjögur ár en þeir sigruðu Andorra, 1:0, í vináttulandsleik á Spáni árið 2014. Sex ár er síðan evrópskt landslið sótti landið heim. Hollendingar, fyrrverandi herraþjóð Indónesa, unnu þá 3:0 í vináttuleik í Jakarta árið 2013 þar sem Siem de Jong skoraði tvö mörk og Arjen Robben eitt. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert