Viktor Helgi í ÍA – Þórður framlengir

Viktor Helgi Benediktsson og Jóhannes Karl Guðjónsson handsala samninginn.
Viktor Helgi Benediktsson og Jóhannes Karl Guðjónsson handsala samninginn. Ljósmynd/ÍA

Viktor Helgi Benediktsson hefur skrifað undir þriggja ára samning við Knattspyrnufélag ÍA og gildir samningurinn út leiktíðina 2020. Viktor Helgi er fæddur árið 1998 og er uppalinn í FH. Hann spilaði 19 leiki með HK í Inkasso-deildinni í fyrra og skoraði þrjú mörk.

„Það er mikill heiður að fá að spila fyrir klúbb með jafnmikla sögu og ÍA. Þetta var í raun aldrei nein spurning eftir að Jói Kalli hringdi í mig og sagðist vilja sjá mig í gulu. Ég átti frábært ár hjá HK 2017 undir hans stjórn og ég veit að það verður frábært að fá að vinna með honum aftur. Það skemmir svo alls ekki fyrir að hafa Sigga Jóns við hlið hans. Það eru rosalega spennandi tímar fram undan hér á Skaganum og get ég ekki beðið eftir því að byrja,“ er haft eftir Viktori á heimasíðu ÍA.

Þá hefur Þórður Þorsteinn Þórðarson skrifað undir nýjan þriggja ára samning, en hann er fæddur árið 1995 og er uppalinn hjá félaginu. Hann á að baki 127 leiki með félaginu og í þeim hefur hann skorað 19 mörk.

„Ég er gríðarlega ánægður með að gera nýjan samning við mitt uppeldisfélag, enda er hjartað mitt hjá ÍA. Markmið næsta sumars er að fara aftur upp, það er ekkert annað sem kemur til greina,“ segir Þórður.

Þórður Þorsteinn Þórðarson.
Þórður Þorsteinn Þórðarson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert