Bikarmeistararnir komnir áfram

Shahab Zahedi skoraði tvö mörk fyrir Eyjamenn í dag.
Shahab Zahedi skoraði tvö mörk fyrir Eyjamenn í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar Guðmundsson

ÍBV sigraði Einherja frá Vopnafirði 4:2 í Vestmannaeyjum í dag þegar liðin áttust við á Hásteinsvelli í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarkeppni karla í knattspyrnu. Eyjamenn hófu því titilvörnina á sigri en Kristján Guðmundsson, þjálfari liðsins, dró 3. deildarlið Einherja upp úr skálinni í síðustu viku.

Fyrri hálfleikur var ekki mikið fyrir augað en liðin skiptust á að fá færi. Todor Hristov klúðraði dauðafæri á 20. mínútu leiksins þegar hann fór framhjá Halldóri Páli Geirssyni, markverði ÍBV, en setti boltann í stöngina. Shahab Zahedi skoraði loksins, 1:0, þegar hann fékk frábæra sendingu frá Degi Austmann Hilmarssyni en hann var einungis nokkra metra frá markinu.

Í hálfleik voru Eyjamenn því einu marki yfir en þeir byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti. Shahab tók þá hornspyrnu og skoraði beint úr henni með föstu skoti sem Oskars Dargis, markvörður Einherja, réði ekki við, 2:0. Oskars átti þó frábæran fyrri hálfleik.

Á 83. mínútu leiksins skoraði Atli Arnarson af miklu öryggi úr vítaspyrnu sem Ágúst Leó Björnsson fékk, þegar brotið var á honum í teignum, 3:0. Margir héldu að þá væri leiknum í raun lokið en sú var ekki raunin.

Jökull Steinn Ólafsson skoraði á 90. mínútu leiksins með skoti undir Halldór Pál þegar hann slapp óvænt í gegnum vörn Eyjamanna, 3:1. Spennan jókst enn frekar á 93. mínútu þegar Númi Kárason slapp í gegn og kláraði sitt færi undir Halldór Pál. Staðan orðin 3:2.

Leikmenn Einherja lögðu þá allt í sölurnar og bjuggust ekki við frábærri spyrnu Halldórs Páls upp völlinn sem setti Ágúst Leó Björnsson óvænt í gegn. Ágúst átti skalla yfir Oskars sem fór í slána og niður, hann fylgdi skallanum eftir og kom boltanum yfir marklínuna, 4:2.

Ótrúlega skemmtilegar lokamínútur í leik sem var þó ekki mikið fyrir augað, fyrstu 89. mínúturnar. Einherjamenn veittu góða mótspyrnu og verða eflaust í baráttunni um efstu sætin í 3. deildinni í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert