„Þetta var bara skítamark“

Ian Jeffs.
Ian Jeffs. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Ég er mjög svekktur. Við áttum meira skilið úr leiknum,“ sagði Ian Jeffs, þjálfari ÍBV, í samtali við mbl.is eftir 1:0 tap liðsins fyrir Breiðabliki í fjórðu umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld.

„Við áttum mjög góðan leik en við þurfum að gera betur í vítateig andstæðinganna. Við erum ekki að klára hlaup af krafti og það vantar gæði í fyrirgjafir og síðustu sendingar. Þetta snýst um það. Þær klára sitt eina færi í leiknum og refsa okkur, enda mjög góðar í því. Það var munurinn í dag á meðan við refsuðum þeim ekki fyrir þeirra mistök,“ sagði Jeffs.

Markið sem réði úrslitum kom eftir fyrirgjöf frá hægri. Emily Armstrong í marki ÍBV sló þá boltann út í teiginn, beint fyrir fætur Berglindar Bjargar Þorvaldsdóttur sem skoraði og reyndist það sigurmarkið.

„Þetta var bara skítamark fannst mér. Það var engin hætta, markvörðurinn fór aðeins út og ég held hún hafi reynt að grípa boltann en missti hann frá sér. Það leit þannig út. Við vorum bara sofandi á meðan þær voru á tánum og þær unnu leikinn út af því,“ sagði Jeffs.

ÍBV er með sex stig eftir fjóra leiki og það er undir væntingum í Vestmannaeyjum.

„Það er á pari samkvæmt spá í fjölmiðlum en það eru meiri kröfur hjá mér og leikmönnum. Við viljum vera í toppbaráttu og ég held við séum með gæði og mannskap til þess að vera að berjast um efstu þrjú sætin. En við þurfum að gera betur innan vítateigs bæði í vörn og sókn ef við ætlum okkur að berjast þar,“ sagði Ian Jeffs við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert