Afturelding sannfærandi í toppslagnum

Afturelding er í toppsætinu.
Afturelding er í toppsætinu. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Afturelding vann sannfærandi 5:1-sigur á Kára í toppslag 2. deildar karla í fótbolta á heimavelli sínum í Mosfellsbæ í kvöld. Með sigrinum endurheimti Afturelding toppsæti deildarinnar, en Kári er í 3. sæti, fjórum stigum á eftir.

Ragnar Már Lárusson kom Kára yfir á 20. mínútu en aðeins mínútu síðar jafnaði Tryggvi Magnússon áður en Jason Daði Svanþórsson kom Aftureldingu yfir á 30. mínútu og var staðan í hálfleik 2:1. 

Andri Freyr Jónasson skoraði tvö mörk með tveggja mínútna kafla tæpu korteri fyrir leikslok áður en Wentzel Steinarr R Kamban gulltryggði 5:1-sigur. 

Í Fjarðabyggðarhöllinni gerðu Leiknir F. og Völsungur 2:2-jafntefli. Travis Nicklaw kom Völsungi yfir á 30. mínútu með eina marki fyrri hálfleiks. Arkadiusz Grzelak skoraði sjálfsmark á 50. mínútu og kom Völsungi í 2:0 en Leiknismenn gáfust ekki upp. 

Dagur Ingi Valsson minnkaði muninn í 2:1 á 76. mínútu áður en Povilas Krasnovskis jafnaði á 85. mínútu og þar við sat. Völsungur er í 4. sæti með 14 stig og Leiknir í 10. sæti með fimm stig. 

mbl.is