Höfum náð að greina ÍBV vel

Geir Bakke (fyrir miðju)
Geir Bakke (fyrir miðju) Ljósmynd/Arnar Gauti

Geir Bakke, þjálfari Sarpsborg 08, sat fyrir svörum á blaðamannafundi í Vestmannaeyjum í dag en Sarpsborg og ÍBV mætast á morgun í undankeppni Evrópudeildarinnar á Hásteinsvelli, þar sem fyrri leikur liðanna fer fram.

Bakke byrjaði á því að hrósa umhverfinu í Vestmannaeyjum og sagðist hann finna fyrir því á Íslandi hve miklu máli fótboltinn skipti fyrir samfélagið, þá sérstaklega í smábæjum líkt og í Vestmannaeyjum.

Að mati þjálfarans hefur Sarpsborg lið til þess að fara alla leið inn í riðlakeppni Evrópudeildarinnar en þetta er fyrsta tímabil Sarpsborg í undankeppni Evrópudeildarinnar frá stofnun félagsins 2008.

„Já, það held ég. Við erum með mjög aggressívan leikstíl og ef við getum mætt andstæðingnum á réttan hátt, þá með því að loka þá inni og pressa hátt á þá, þá getum við unnið en ef við gerum það ekki lendum við í vandræðum.“

Sarpsborg sigraði nýliða Ranheim í norsku deildinni á sunnudaginn, en Ranheim hafa komið mikið á óvart og eru við topp deildarinnar, og hafa því ekki haft mikinn tíma í það að skoða lið ÍBV.

„Við spiluðum fyrir þremur dögum í Noregi en við höfum skoðað myndbönd af leikjum liðsins og náð að greina nokkuð vel leik liðsins. Við erum vel undirbúnir. Þeir eru mjög góðir í föstum leikatriðum, í hornspyrnum og aukaspyrnum úti á köntunum. Við þurfum að verjast því vel, þeir eru einnig fljótir upp völlinn þegar þeir vinna boltann og þurfum við að varast það.“

Í norsku úrvalsdeildinni spilar rúmur helmingur liðanna á gervigrasi en Sarpsborg er eitt þeirra liða, telur Bakke að það muni skipta máli á morgun að leikið sé á grasi?

„Það gæti mögulega haft áhrif en það er ekki eitthvað sem við viljum eyða miklum tíma í að ræða.“

Bakke nefndi Shahab Zahedi og Kaj Leo í Bartalsstovu sem leikmenn sem liðið þyrfti að varast í leiknum á morgun en þar nefndi hann hraða Shahab og hættulegan vinstri fót Kaj Leo. Þó nefndi hann einnig að það væri samvinnan og vinnusemin í ÍBV liðinu sem hann óttaðist meira.

mbl.is