Þór/KA semur við nýjan markmann

Stephanie Bukovec
Stephanie Bukovec Ljósmynd/Thorsport.is

Knattspyrnudeild Þórs/KA hefur samið við markvörðinn Stephanie Bukovec út yfirstandandi leiktíð. Hún kemur frá hollenska félaginu PEC Zwolle eftir eins árs dvöl þar, en hefur áður komið við sögu hjá sænska liðinu Tocksfors, Belmont Bruins í Nashville og liði Oakland-háskóla í Kaliforníu.

Bukovec er fædd 1995. Hún er frá Toronto í Ontario-fylki í Kanada, en á króatískan föður og pólska móður og hóf að leika með króatíska landsliðinu 2017. Jafnframt verður samningur við sænska markvörðinn Johönnu Henriksson framlengdur út leiktíðina, en upphaflega var samið við hana til tveggja mánaða til reynslu.

Þór/KA er í öðru sæti Pepsi-deildarinnar með 23 stig, stigi á eftir Breiðabliki. 

mbl.is