Verða að mæta með glampa í augum

Denis Zakaria skorar annað mark Sviss í leiknum. Hannes var …
Denis Zakaria skorar annað mark Sviss í leiknum. Hannes var ekki öfundsverður af sínu hlutverki en fjögur marka Svisslendinga komu úr dauðafærum og hin tvö eftir nákvæm skot. AFP

Markvörðurinn Hannes Þór Halldórsson þurfti að ná í boltann sex sinnum í netið þegar Sviss burstaði Ísland 6:0 í Þjóðadeild UEFA í gær. Hannes hefur aðeins einu sinni lent í stærra tapi í alvöruleik í meistaraflokki en það var með KR.

Var það í Evrópuleik með KR gegn HJK í Helsinki fyrir nokkrum árum en Finnarnir unnu 7:0. Fram að leiknum í St. Gallen segir Hannes það hafa verið sína verstu minningu á ferlinum.

Íslensku landsliðsmennirnir voru ólíkir sjálfum sér og utan frá virkuðu þeir óvenju daufir.

„Það er alveg rétt. Einhverra hluta vegna var það svolítið þannig. Ég myndi segja að fyrri hálfleikurinn hafi verið í takt við þegar við náum ekki upp okkar besta leik og eigum ekkert sérstakan hálfleik eins og stundum gerist. Þá var 2:0 fyrir þá en síðan kemur þriðja markið snemma í síðari hálfleik og allt hrynur. Seinni hálfleikurinn var skelfilegur. Ég hef lent í því einu sinni eða tvisvar á ferlinum að allt fer úrskeiðis í einum leik hjá fínu fótboltaliði. Svona gerist öðru hverju í fótboltanum. Það var eitthvað sem gerðist bæði hjá okkur og andstæðingnum. Síðustu 35 mínúturnar voru bara martröð. Þeir voru frábærir og við hrikalegir. Maður vill ekki lenda í því að andstæðingurinn labbi yfir mann og maður geti ekkert gert til að stöðva það. Þetta hefur aldrei gerst áður hjá okkur og mun ekki gerast aftur. Við þurfum að sjá til þess því það mun ekki gerast sjálfkrafa enda erum við að spila við góðar þjóðir um þessar mundir. Þetta var niðurlæging og stoltið er sært en nú verðum við að grafa eftir sjálfstraustinu og muna hvað við getum,“ sagði Hannes að leiknum loknum í gær en á þriðjudag bíður íslenska liðsins að taka á móti bronsliði HM, Belgíu.

Hannes er undir það búinn að umræðan um leikinn gegn Sviss verði harkaleg fyrir íslenska liðið og kallar eftir stuðningi á þriðjudaginn.

„Við þurfum að vera tilbúnir í næsta leik (gegn Belgíu á þriðjudag) og þurfum stuðning til þess. Auðvitað verðum við hakkaðir í spað núna en við þurfum að biðja um stuðning til að rífa okkur í gang og halda áfram á þeirri vegferð sem við erum á. Við þurfum að mæta Belgum með glampa í augunum og uppbrettar ermar,“ sagði Hannes sem ekki verður sakaður um flest mörkin sem Sviss skoraði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert