Er bæði hræddur og spenntur

Guðmundur Benediktsson.
Guðmundur Benediktsson. Ljósmynd/mbl.is

„Það er erfitt að segja annað en maður sé svolítið smeykur. Við erum að fara að mæta gríðarlega góðu liði og við höfum heldur betur orðið fyrir skakkaföllum undanfarna daga og vikur,“ sagði Guðmundur Benediktsson í samtali við mbl.is í Brussel í gær en Gummi Ben lýsir leik Belga og Íslendinga í Þjóðadeild UEFA á Stöð 2 Sport í kvöld.

„En að sama skapi er ég svolítið spenntur að sjá hvernig við munum bregðast við og sjá þá leikmenn sem fá tækifæri sem hefðu annars ekki fengið tækifæri. Ég er svona einhvers staðar á milli, hræddur og spenntur en kannski meira spenntur. Nú er tækifæri fyrir þá leikmenn sem lítið hafa fengið að spila og þá sem eru að koma inn í landsliðið að sýna það að þeir eigi heima á þessu sviði.

Ég held að við þurfum öll að gera okkur grein fyrir því að það eru fullskipuð lið og sterkari landslið en við erum með sem hafa þurft að bíta í það súra epli að steinliggja gegn Belgum síðustu misserin. Ég held að við þurfum að vera svolítið raunsæ á þennan leik en ég held samt, að það er yfirleitt þannig með okkur Íslendinga, að þegar enginn býst við neinu þá kemur einhver trú í leikmenn,“ sagði Guðmundur Benediktsson.

Leikur Belga og Íslendinga hefst klukkan 19.45 að íslenskum tíma og verður leikurinn í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is