KSÍ hefur gert vel í að auðvelda löng ferðalög

Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, segir ljóst að leikirnir gegn Frökkum í undankeppni EM verði öðruvísi en vináttulandsleikur þjóðanna á dögunum þar sem Ísland var hársbreidd frá því að leggja heimsmeistarana að velli.

Ísland dróst með Frakklandi í undanriðil fyrir EM árið 2020 en auk Frakk­lands er Tyrk­land, Alban­ía, Moldóva og Andorra með Íslandi í riðli. Hannesi líst vel á riðilinn þrátt fyrir að nokkuð löng ferðalög séu í vændum.

Ísland lék í riðli með Tyrkjum fyrir undankeppni HM í Rússlandi í ár, og fyrir EM í Frakklandi árið 2016, gegn Frökkum í vináttulandsleik á dögunum og í 8-liða úrslitum lokakeppni EM í Frakklandi, og gegn Albaníu í undankeppni HM í Brasilíu árið 2014.

„Mér líst ágætlega á þennan riðil. Hann er erfiður og kannski ekki spennandi í ljósi þess að við höfum mætt mörgum af þessum liðum nýlega og ferðalögin eru löng, en KSÍ hefur gert vel í að auðvelda löng ferðalög og við höfum sýnt að við getum vel náð í úrslit á erfiðum útivöllum. Þetta eru lið sem við höfum náð góðum úrslitum gegn síðustu ár og við förum þess vegna bjartsýnir í þetta verkefni og stefnum að sjálfsögðu á að fara áfram,“ segir Hannes.

Ísland komst í 2:0 gegn ríkjandi heimsmeisturum Frakka í vináttulandsleik í október þar sem liðið komst í 2:0

„Það er aldrei það sama að spila æfingaleik og mótsleik þannig að það er ljóst að Frakkarnir verða gríðarlega erfiður andstæðingur, en Ísland hefur oft spilað vel gegn Frakklandi. Þetta er spennandi áskorun,“ segir Hannes við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka