„Meðbyr sem við nýttum“

Karen Knútsdóttir skoraði 10 mörk í kvöld. Mörg hver einmitt …
Karen Knútsdóttir skoraði 10 mörk í kvöld. Mörg hver einmitt með skoti af gólfinu. mbl.is/Hari

Karen Knútsdóttir lék mjög vel í kvöld þegar Fram tryggði sér sæti í úrslitum Íslandsmóts kvenna í handknattleik og skoraði 10 mörk. Karen sagðist fyrir fram ekki hafa búist við 3:0 sigri Fram í rimmunni gegn ÍBV. 

Fram byrjaði með miklum látum og komst í 7:0 og 10:1. „Einbeitingin var í lagi í upphafi leiks og vörnin frábær. Við spiluðum nýtt varnarafbrigði og einhvern veginn gekk allt upp hjá okkur. Með okkur var meðbyr sem við nýttum. Þetta var draumabyrjun en óraunhæft að halda slíku forskoti allan leikinn gegn góðu liði. En við unnum leikinn út af þessari byrjun,“ sagði Karen en Fram-liðið kom lengra út á móti í vörninni en áður. „Við höfum spilað 6-0 en vorum núna í framliggjandi 5-1 vörn. Við vonuðumst eftir því að fiska boltann oftar og það tókst. Þá fengum við þessi hraðaupphlaup sem okkur líður best í.“

Spurð út í niðurstöðuna í rimmunni sem var 3:0 sigur Fram sagði Karen það koma á óvart en benti á að ÍBV hafi liðið fyrir að Guðný Jenný Ásmundsdóttir meiddist. „Fyrir fram hefði ég ekki veðjað á 3:0. Við komum mjög gíraðar inn í þessa úrslitakeppni. Auðvitað voru þær óheppnar að missa Jenný sem er frábær markvörður og getur átt leiki þar sem hún lokar markinu,“ sagði Karen Knútsdóttir í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert