Líklegir meistarar

Valsmennirnir Emil Lyng, til vinstri, og Sebastian Hedlund í baráttu …
Valsmennirnir Emil Lyng, til vinstri, og Sebastian Hedlund í baráttu við Stjörnuna í Meistarakeppni KSÍ á dögunum. mbl.is/Árni Sæberg

Valsmenn eru að mínu mati líklegastir til að hampa Íslandsmeistaratitlinum í haust og verða þar með Íslandsmeistarar þriðja árið í röð.

Þó svo að markakóngurinn Patrick Pedersen, sem átti risastóran þátt í meistaratitlinum í fyrra, sé farinn sem og leikmenn eins og Guðjón Pétur Lýðsson og Dion Acoff þá hafa Valsmenn leikið sama leik og fyrir síðustu leiktíð. Þeir hafa einfaldlega styrkt góðan leikmannahóp sem fyrir var og enginn veit það betur en þjálfarinn Ólafur Jóhannesson að það er nauðsynlegt til að viðhalda góðu gengi.

Landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson gekk í raðir Íslandsmeistaranna á dögunum og með komu hans er Valsliðið orðið ógnarsterkt frá fremsta til aftasta manns. Það kemur í hlut Gary Martin að reyna að komast í markaskóna sem Pedersen skildi eftir á Hlíðarenda. Gary gjörþekkir íslenska boltann en þó svo að hann hafi ekki sama markanef og Daninn knái þá vita flestir að Englendingurinn getur verið skæður sóknarmaður. Ásamt því að fá Gary Martin og Hannes Þór er Orri Sigurður Ómarsson aftur kominn í rauðu treyjuna, Valur fékk Danina Emil Lyng og Lasse Petry, Færeyinginn leikna Kaj Leo i Bartalstovu, hinn bráðskemmtilega Birni Snæ Ingason og Garðar Gunnlaugsson, sem kann ennþá að skora mörk þótt hann sé kominn vel á fertugsaldurinn.

Sjá greinina í heild í blaðinu Fótboltinn 2019 sem fylgir Morgunblaðinu í dag en þar er fjallað ítarlega um Íslandsmót karla og kvenna sem hefst með viðureign karlaliða Vals og Víkings í kvöld.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert