Lélegt að nýta ekki þessa yfirburði

Rúnar Páll Sigmundsson fylgist spenntur með af hliðarlínunni.
Rúnar Páll Sigmundsson fylgist spenntur með af hliðarlínunni. mbl.is/Eyþór Árnason

„Eins og þetta horfði við mér þá var þetta bara kæruleysi hjá okkur. KA-menn fengu nú ekki margar sóknir í þessum leik, og hvað þá færi, en þeir nýttu færin sín vel,“ segir Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, um mörkin tvö sem KA skoraði í 2:0-sigri á Stjörnunni í úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Staðan í hálfleik var markalaus og var Stjarnan mun líklegri til þess að brjóta ísinn í fyrri hálfleiknum. KA skapaði sér varla færi en það breyttist svo í seinni hálfleik þegar KA skoraði mörkin sín tvö með fimm mínútna millibili.

„Við komum bara mjög sáttir inn eftir fyrri hálfleikinn, þrátt fyrir að ná ekki að skora mark. Þetta voru svolitlir yfirburðir. Síðan fengum við bara tvö mörk í andlitið í byrjun seinni hálfleiks. Það var skellur fyrir okkur. Það var svolítið einbeitingarleysi hjá okkur í báðum þessum mörkum. Síðan var þetta bara einstefna restina af leiknum, eins og í fyrri hálfleik, en KA-menn vörðust auðvitað vel. Við náðum ekki að brjóta þá á bak aftur þrátt fyrir að fá möguleika til þess,“ segir Rúnar Páll, sem vill ekki gera mikið úr vandræðum Stjörnumanna með að koma boltanum í netið í dag:

„Nei, það er bara erfitt að brjóta svona múr aftur. Við reyndum hvað við gátum og fengum alls kyns opnanir. Það er bara lélegt að nýta ekki þessa möguleika sem við fengum, þessa yfirburði. Það er ekki spurt um þá í knattspyrnunni. Þetta snýst um að skora mörk, og við vorum ekki flinkir við að gera það í dag. En það þýðir ekkert að hengja haus.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert