Erfitt að brjóta Skagamenn á bak aftur

Darraðardans á Akranesi í kvöld.
Darraðardans á Akranesi í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í knattspyrnu sagði sína menn hafa verið klaufa að fá á sig fyrra mark leiksins gegn ÍA á Akranesi í kvöld, sem hans menn töpuðu 2:0.

„Við erum klaufar að fá þetta mark á okkur, það var ekki nógu gott þetta fyrsta mark og gerði það að verkum að þeir féllu ennþá meira til baka og þá er erfitt að brjóta Skagamenn aftur,“ segir Rúnar Páll í samtali við mbl.is.

Hann segir að leikur kvöldsins hafi verið leikur tveggja öflugra liða. „Þetta var mikil stöðubarátta og Skagamenn spila svolítið öðruvísi fótbolta en önnur lið, þeir beita löngum boltum frá markmanni og reyna að vinna annan boltann og nýta föst leikatriði og gera það feykivel. Við náðum að halda skipulaginu vel í því öllu, alveg þar til þeir skora þetta fyrsta mark, svolítið gegn gangi leiksins fannst mér, en það er ekki spurt að því.“

Stjörnumenn náðu ekki að skapa sér mörg færi í fyrri hálfleik. Spurður hvort hann hafi breytt einhverju í upplegginu í hálfleiknum segir Rúnar að svo hafi ekki verið.

„Nei, við bara ætluðum að halda áfram sama skipulagi. Við fengum ágætis upphlaup, en þeir verjast með rosalega marga menn og það er erfitt að komast á bakvið þá. Við fengum fullt af föstum leikatriðum og aukaspyrnum fyrir utan teig sem við hefðum átt að nýta betur. En Árni [Snær, markvörður ÍA] þurfti ekki að verja mörg skot í leiknum. Við vorum ekki alveg nógu graðir í þessa bolta.“

Stjarnan hefur 8 stig eftir sex umferðir í Pepsi Max-deildinni. Það er staða sem Rúnar er heldur óhress með.

„Ég hefði viljað fá miklu meira af stigum og við allir. En þú breytir því ekki núna, við þurfum bara að halda áfram, það er enginn sem gerir þetta fyrir okkur, við verðum bara að gera þetta sjálfir. Það er bara næsti leikur!“ segir Rúnar Páll Sigmundsson.

Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar segir sína menn hafa verið …
Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar segir sína menn hafa verið klaufa í fyrra markinu sem Stjarnan fékk á sig á Akranesi í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason
mbl.is