Skoruðum markið sem taldi

Ágúst Gylfason, þjálfari Blika, var afar sáttur með sigur sinna …
Ágúst Gylfason, þjálfari Blika, var afar sáttur með sigur sinna manna gegn Íslandsmeisturum Vals í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var vinnusigur hjá okkur í dag og frábær þrjú stig, sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks,“ í samtali við mbl.is eftir 1:0-sigur Blika gegn Val í 6. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld.

„Við pressuðum Valsarana hátt á vellinum og ég er gríðarlega ánægður með allt liðið í dag og frammistöðuna. Bæði lið vildu þrjú stig fyrir leikinn en við tókum þau í dag sem er mikilvægt fyrir okkur í toppbaráttunni. Við erum að reyna fylgja eftir frábæru Skagaliði sem er á miklu flugi og við þurftum á þessum þremur stigum að halda til þess að halda í við þá. Vinnuframlagið í dag skóp þennan sigur og það sást á leikmönnum liðsins að þeir ætluðu sér að vinna þennan leik.

Blikar fengu nokkkur frábær færi til þess að gera út um leikinn en Ágúst var ánægður með karakterinn í sínum mönnum að halda áfram að þjarma að Valsliðinu.

„Við sýndum ákveðin karakter í því að gefast ekki upp þótt við værum að brenna af nokkrum dauðafærum. Valsararnir vilja meina að tvö lögleg mörk hafi verið tekin af þeim en við þurfum ekki að pæla mikið í því þar sem að við skoruðum eina markið sem taldi í leiknum. Við héldum hreinu í þokkabót og ég er mjög sáttur.„

Thomas Mikkelsen, framherji Blika, var ekki í leikmannahóp liðsins í dag en Ágúst segir að hann hafi verið að glíma við meiðsli í aðdraganda leiksins.

„Thomas var tæpur fyrir leikinn og við ákváðum að taka engan áhættu með hann. Það er leikur á fimmtudaginn hjá okkur og svo aftur á sunnudaginn og hann verður klár þá,“ sagði Ágúst Gylfason í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert