Burstinn var góð markaðssetning

Emil Hallfreðsson átti mjög góðan leik á miðjunni hjá íslenska …
Emil Hallfreðsson átti mjög góðan leik á miðjunni hjá íslenska liðinu í dag. mbl.is/Hari

„Mér leið mjög vel í leiknum og ég var ákveðinn í að gefa allt í þetta,“ sagði Emil Hallfreðsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 2:1-sigur liðsins gegn Tyrklandi í undankeppni EM á Laugardalsvelli í kvöld.

„Ég hef æft mjög vel, undanfarna þrjá mánuði, og náði góðum 90 mínútum um daginn sem hjálpar auðvitað. Mér fannst fyrri hálfleikurinn hjá okkur frábær og það var í raun bara skita af okkar hálfu að fá þetta mark á sig upp úr hornspyrnu. Það opnaði aðeins leikinn og gaf þeim möguleika á því að jafna leikinn en í seinni hálfleik færumst við ósjálfrátt aftar á völlinn og ætlum að reyna að beita skyndisóknum en heilt yfir var þetta vel spilaður leikur af okkar hálfu og þetta var mjög góður sigur.“

Emil fékk gult spjald strax á 15. mínútu og þurfti því að fara varlega það sem eftir lifði leiks.

„Það var alveg óþolandi að fá þetta spjald á 15. mínútu þegar það voru enn þá 75 mínútur eftir af leiknum og það var óþægilegt. Þetta var fyrsta brotið mitt í leiknum og ég fór beint í boltann og mér fannst þetta ósanngjarnt en þetta gekk upp. Ég þurfti að passa mig það sem eftir lifði leiks og ég fór í aðra tæklingu þarna undir restina en að gefa manni tvö gul eftir tvö brot hefði verið hart.“

Það var frábær stemning á Laugardalsvelli í kvöld og Emil var þakklátur fyrir stuðninginn sem liðið fékk í leiknum.

„Þetta var góð markaðssetning með þennan blessaða bursta í vikunni og hann vakti ákveðna athygli á þessum leik sem er frábært. Við þurftum á fullum velli að halda og stemningin í kvöld var mögnuð og ég er hrikalega þakklátur öllum þeim sem komu á völlinn í kvöld til þess að styðja við bakið á okkur og ég tel að það hafi gert gæfumuninn á örlagaríkum augnablikum í leiknum,“ sagði Emil Hallfreðsson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert