Reyndi að tuskast nálægt teignum

Höskuldur, lengst til hægri, í leiknum í kvöld.
Höskuldur, lengst til hægri, í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Höskuldur Gunnlaugsson var hetja Breiðabliks í 4:2-sigri á Fylki í átta liða úrslitum Mjólkurbikarsins í fótbolta í kvöld. Staðan í venjulegum leiktíma var 2:2, en Höskuldur skoraði tvö mörk í framlengingu og tryggði Breiðabliki sæti í undanúrslitum. 

„Þetta var smá fúsk og að reyna að vera réttur maður á réttum stað. Ég vissi að menn voru orðnir þreyttir, eins og gengur og gerist í framlengingu. Þá oft ráðast mörk og úrslit á mistökum og ég reyndi að að tuskast nálægt teignum, því þar koma mörkin," sagði Höskuldur um mörkin sín í samtali við mbl.is.

Fyrra markið hans átti ekki að standa, þar sem hann var bæði í rangstöðu og brotlegur. Hann vildi hins vegar ekki meina að hann væri brotlegur. „Mér fannst það ekki. Ég var að taka mér stöðu og það hefði aldrei verið dæmt á þetta úti á velli og það á ekki að vera öðruvísi í teignum."

Höskuldur var nokkuð sáttur við spilamennskuna heilt yfir, en leikurinn var frekar kaflaskiptur. 

„Þetta var fram og til baka. Fylkismenn eru drullugóðir og það virðist vera fullt af mörkum þegar liðin mætast. Þeir fengu sín færi en við áttum lengri spilakafla, sérstaklega í fyrri hálfleik eftir að við fáum markið á okkur. Við létum þá hlaupa. Í seinni koma þeir aftur sterkir og, en svo vorum við sterkari í framlengingunni," sagði Höskuldur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert