Aldrei séð Molde svona góða

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, fylgist með sínum mönnum af hliðarlínunni …
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, fylgist með sínum mönnum af hliðarlínunni á Aker-vellinum í Molde í kvöld. Ljósmynd/NTB

„Við vorum að mæta frábæru Molde-liði og ég hef aldrei séð þá svona góða ef ég á að vera hreinskilinn,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, í samtali við mbl.is eftir 7:1-tap liðsins gegn norska liðinu Molde í fyrri leik liðanna í 1. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu á Aker-vellinum í Molde í Noregi í dag.

„Gervigrasið var rennandi blautt og það var mikill hraði í leiknum en við fáum á okkur þrjú mörk úr föstum leikatriðum og það er dýrt. Við byrjuðum leikinn mjög vel og fengum í raun bara dauðafæri strax á upphafsmínútunum. Þeir bruna upp í sókn og skora frábært mark eftir laglegt samspil og það er lítið sem við gátum gert í því. Við fáum svo nokkra möguleika eftir þetta áður en þeir bæta við tveimur mörkum til viðbótar eftir hornspyrnur. Þeir voru mun sterkari en við í föstum leikatriðum og það verður okkur aðeins að falli og gerði þetta erfiðara en ella.“

Rúnar var ósáttur með mörkin sem liðin fékk á sig úr föstum leikatriðum en ítrekar að Norðmennirnir hafi haft ákveðna yfirburði í leiknum þegar kemur að bæði stærð og líkamsstyrk.

„Þeir eru mjög vel spilandi og með frábæra leikmenn innanborðs. Mér fannst við verjast ágætlega á köflum í þessum leik en okkur gekk ekki vel að verjast þeim í föstum leikatriðum þar sem þeir voru einfaldlega stærri og líkamlega sterkari en við í ákveðnum leikatriðum. Þetta voru tvö nauðalík mörk sem þeir skora í fyrri hálfleik en þeir vinna fyrsta boltann og eru svo grimmari en við í seinni boltann. Við létum ýta okkur út úr stöðum í föstum leikatriðum í dag og það verður okkur að falli.“

Norska liðið sundurspilaði KR-inga á stórum köflum í leiknum og Rúnar viðurkennir að þeir hafi verið að mæta betra liði í dag.

„Þeir sýndu það í fyrsta markinu hversu góðir þeir eru. Þeir skoruðu keimlíkt mark í síðastu umferð norsku úrvalsdeildarinnar gegn Odd þar sem þeir spiluðu sig nánast inn í mark andstæðinganna. Þeir eru hrikalega góðir í þessu stutta spili og við vissum það fyrir leikinn en við reyndum eins og við gátum. Fyrsta og fjórða markið sem þeir skora er mjög lýsandi fyrir þeirra leik en það er bara meiri hraði og örlítið meiri gæði í þeirra liði en okkar,“ sagði Rúnar Kristinsson í samtali við mbl.is.

mbl.is