Rútína Loga virkaði fyrir Brynjólf

Brynjólfur Darri Willumsson.
Brynjólfur Darri Willumsson. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér finnst við hafa tapað tveimur stigum því við vorum með þennan leik þar til þeir skoruðu jöfnunarmarkið og það var klaufalegt,“ sagði hinn 19 ára gamli Brynjólfur Darri Willumsson í samtali við mbl.is í kvöld en hann skoraði tvívegis fyrir Breiðablik á Kópavogsvellinum. 

Liðin skildu jöfn 3:3 en Valur komst í 2:0 og þá skoraði Breiðablik þrjú í röð. „Mér fannst við gera og sýna karakter með því að koma til baka eftir slæma byrjun. Við vorum með tök á þessu fannst mér þangað til við fengum á okkur hálfgert aulamark. Við ræddum málin í stöðunni 2:0 og vildum rífa okkur í gang og gera þetta almennilega. Við fórum með fullt sjálfstraust út í seinni hálfleik eftir að hafa skorað tvö mörk fyrir hlé. En þeir fengu eitt langt innkast þar sem boltinn fór inn á teiginn, út af, fyrirgjöf og mark.“

Brynjólfur nýtti tækifærið vel í byrjunarliðinu í kvöld og skoraði fyrsta og þriðja mark Breiðabliks. „Ég er alltaf með sjálfstraustið í botni en geri mitt besta í að spila fyrir liðið. Það komu tvö mörk í dag. Það var mjög sætt. Ég tók mig til og ákvað að vera með Loga Tómassyni í aðdraganda leiksins. Hann hefur skorað tvö mörk á móti Val og ég ákvað að fara eftir hans rútínu í dag og það virkaði greinilega,“ sagði Brynjólfur og glotti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert