Það verður enginn skotinn fyrir það að gera mistök

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari U21 árs landsliðsins.
Arnar Þór Viðarsson, þjálfari U21 árs landsliðsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

U21 ára landslið karla í knattspyrnu fékk skell gegn Svíum í undankeppni Evrópumótsins í Helsinborg á laugardaginn en Svíar unnu stórsigur 5:0. Íslenska liðið fær á morgun tækifæri til rétta sinn hlut þegar það tekur á móti Írum á Víkingsvelli klukkan 15.

Írar eru í toppsæti riðilsins með 10 stig eftir fjóra leiki, Ísland er með 6 stig eftir tvo leiki í öðru sæti, Ítalir eru með 4 stig eftir tvo leiki í þriðja sætinu og Svíar er með 3 stig eftir tvo leiki í fjórða sætinu.

„Við byrjuðum leikinn á móti Svíunum vel og fengum til að mynda dauðafæri eftir einhverjar fimm mínútur og vorum bara í fínu standi fram að fyrsta marki Svíana sem kom eftir rúmlega 20 mínútna leik. Svíarnir skoruðu svo annað markið undir lok hálfleiksins. Við reyndum að stöðva blæðinguna í hálfleik og byrjunin á síðari hálfleiknum var ágæt hjá okkur en þegar Svíarnir skoruðu þriðja markið náðu þeir að drepa leikinn. Úrslitin gefa ekki alveg rétta mynd af leiknum. Munurinn er ekki þessi á milli liðanna. Svíarnir duttu hins vegar inn á mjög góðan dag á meðan allt fór úrskeiðis hjá okkur,“ sagði Arnar Þór Viðarsson, þjálfari U21 árs landsliðsins í samtali við mbl.is fyrir æfingu U21 árs landsliðsins á Víkingsvelli í morgun.

Ísland vann tvo fyrstu leiki sína í riðlinum á Víkingsvelli í síðasta mánuði, Lúxemborg 3:0 og Armeníu 6:1 en segja má að íslenska liðið hafi verið skotið niður á jörðina á laugardaginn.

„Við erum búnir að tala við strákana frá því byrjuðum í mars að það verður enginn skotinn fyrir það að gera mistök. Við erum að reyna að setja hápressu á andstæðinginn og reyna að láta liðið taka frumkvæðið í leikjunum. Stundum gengur það upp og stundum ekki og við þurfum bara að læra af þessu. Írarnir eru að mínu mati eitt besta liðið í riðlinum. Þeir unnu Svíana á útivelli og gerðu jafntefli við Ítalina í síðustu viku. Það er frábært verkefni fyrir okkur að mæta Írunum og vonandi getum við bætt þá hluti sem voru ekki nógu góðir.

Þegar við skoðuðum leikinn á móti Svíunum voru þrír hlutir sem gengu ekki eins vel og í leikjunum á undan. Við vorum ekki að hlaupa eins mikið. Það sáum við á hlaupatölum. Við vorum ekki eins grimmir í návígjum og að setja pressu á boltann fram á við og varnarfærslurnar voru ekki eins góðar.  Ef við lögum þessa hluti í leiknum á morgun þá á þetta að geta verið 50/50 leikur. Þetta er leikur sem við viljum ekki tapa og við fáum gott tækifæri til rétta okkar hlut,“ sagði Arnar Þór.

Óvíst er hvort Mikael Anderson geti verið með á morgun en hann fékk spark í fótinn í leiknum á móti Svíunum og hann æfði ekki með liðinu í morgun. Að öðru leyti eru allir frískir að sögn Arnars Þórs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert