Þjálfarateymi Skagamanna orðið klárt

Frá vinstri: Ingimar Elí Hlynsson, Jóhannes Karl Guðjónsson og Arnór …
Frá vinstri: Ingimar Elí Hlynsson, Jóhannes Karl Guðjónsson og Arnór Snær Guðmundsson. Ljósmynd/kfia.is

Þjálfarateymi karlaliðs ÍA í knattspyrnu er nú orðið klárt fyrir næstu leiktíð en þeir Arnór Snær Guðmundsson og Ingimar Elí Hlynsson hafa verið ráðnir aðstoðarþjálfarar og verða þjálfaranum Jóhannesi Karli Guðjónssyni innan handar. Frá þessu er greint á heimasíðu ÍA. 

Sigurður Jónsson hefur verið aðstoðarþjálfari Skagamanna en hann var nýlega ráðinn afreksþjálfari ÍA og verður áfram annar af þjálfurum 2. flokks.

„Jafnframt mun Arnór Snær sjá um styrktarþjálfun hjá meistararaflokki og koma að styrktarþjálfun hjá yngri flokkum félagsins.

Arnór Snær Guðmundsson hefur leikið 110 deildar- og bikarleiki með ÍA og skorað í þeim sex mörk. Hann mun nú leggja skóna á hilluna og einbeita sér að þjálfun. Hann hefur þjálfað yngri flokka félagsins um nokkurt skeið.

Ingimar Elí Hlynsson lék 27 deildarleiki á sínum tíma með ÍA og skoraði í þeim eitt mark. Í fyrra var hann þjálfari Kára um skeið í 2. deild karla,“ segir á heimasíðu ÍA.

mbl.is