Nýir leikdagar fyrir undankeppni EM

Dagný Brynjarsdóttir fagnar með liðsfélögum sínum í leik Íslands og …
Dagný Brynjarsdóttir fagnar með liðsfélögum sínum í leik Íslands og Norður-Írlands á Pinatar-mótinu á Spáni. Ljósmynd/KSÍ

Evrópska knattspyrnusambandið hefur gefið út nýja leikdaga fyrir þá leiki sem eftir eru í undankeppni Evrópumeistaramóts kvenna sem fram fer á þar næsta ári. Ísland er þar í riðli með Svíþjóð, Ungverjalandi, Slóvakíu og Lettlandi.

Ísland er ásamt Svíþjóð á toppi riðilsins með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir en liðin eiga eftir að mætast innbyrðis. Ísland vann Ungverjaland í fyrstu umferðinni, 4:1, og Slóvakíu næst 1:0, á Laugardalsvellinum í haust. Liðið vann svo 6:0-stórsigur á Lettlandi á útivelli.

Efsta liðið í hverjum riðli fer beint á EM sem haldið verður í Englandi eftir tvö ár en mótinu var frestað um eitt ár vegna kórónuveirunnar. Þau þrjú lið sem verða með besta árangurinn í 2. sæti í riðlunum níu fara einnig beint á mótið en hin sex liðin mætast í umspili sem fram fer á næsta ári.

Vert er að taka fram breytingar geta orðið á þessum leikdögum eftir aðstæðum en sem stendur fara leikirnir fram á eftirtöldum dögum.

Leikirnir sem Ísland á eftir:
17. september: Ísland - Lettland
22. september: Ísland - Svíþjóð
27. október: Svíþjóð - Ísland
26. nóvember: Slóvakía - Ísland
1. desember: Ungverjaland - Ísland

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert