Allir búnir að fella okkur

Pétur Theódór Árnason skoraði 15 mörk í 1. deildinni á …
Pétur Theódór Árnason skoraði 15 mörk í 1. deildinni á síðustu leiktíð. mbl.is/Arnþór Birkisson

Grótta kom öllum á óvart í fyrra þegar liðið stóð uppi sem sigurvegari í 1. deild karla í knattspyrnu og tryggði sér í leiðinni sæti í efstu deild í fyrsta skipti í sögu félagsins en liðið hafði ári áður endað í öðru sæti í 2. deildinni. Enginn spáði Seltirningum sérlega góðu gengi síðasta sumar en þeir komu öllum heldur betur á óvart. Þá spáir enginn þeim öðru en falli úr Pepsi-deildinni í sumar og Morgunblaðið sló á þráðinn til markaskorararns Péturs Theodórs Árnasonar til að taka stöðuna á Gróttuliðinu fyrir komandi Íslandsmót.

„Það eru nánast allir fjölmiðlar búnir að fella okkur niður sem er kannski skiljanlegt. Við áttum ótrúlegt tímabil í fyrra, sem við bjuggumst ekkert við ef ég á að vera alveg hreinskilinn,“ sagði Pétur, markakóngur 1. deildarinnar með 15 mörk. „En þessar spár hjálpa okkur bara, við komum pressulausir inn í sumarið og njótum þess. Flestallir hjá okkur eru að fara að eiga sitt fyrsta alvörutímabil í efstu deild og þetta verður bara gaman.“

Viljum spila skemmtilega

Gróttumenn urðu snarlega þekktir sem skemmtilegt fótboltalið í fyrra en engum datt þó í hug að nýliðarnir væru líklegir til að blanda sér í toppbaráttuna, ekki í upphafi móts í það minnsta. Liðið spilaði beinskeyttan fótbolta og leikáætlunin var vafningalaus, það átti einfaldlega að sækja til sigurs. Þegar upp var staðið skoruðu Gróttumenn 45 mörk yfir sumarið, aðeins hinir nýliðarnir í Fjölni skoruðu meira, en Grótta fékk á sig 31 mark, flest allra liða í efri hluta deildarinnar. Síðan þá hefur liðið auðvitað skipt um þjálfara, og þjálfararnir í raun skipt um úlpu. Óskar Hrafn Þorvaldsson tók við Breiðabliki og Ágúst Gylfason, sem stýrði Blikum síðustu tvö sumur, er kominn á Seltjarnarnesið. Honum til aðstoðar er Guðmundur Steinarsson. Litlar mannabreytingar hafa orðið í liðinu og auðvitað hefur kórónuveiruástandið haft einhver áhrif en Pétur segir leikmenn bratta og fulla tilhlökkunar fyrir komandi tímabili.

Viðtalið í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert