Stikla sem minnir á Game of Thrones

Hannes Þór Halldórsson leikstýrði nýju kynningarmyndbandi KSÍ.
Hannes Þór Halldórsson leikstýrði nýju kynningarmyndbandi KSÍ. mbl.is/Hari

Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, kynnti í gær nýtt landsliðsmerki og nýjan landsliðsbúning en sambandið gerði sex ára samning við Puma í sumar. Samhliða kynningunni frumsýndi KSÍ kynningarmyndband fyrir nýja landsliðsmerkið sem fengið hefur mikið lof en það var Hannes Þór Halldórsson, markvörður landsliðsins, sem leikstýrði myndbandinu.

Sports Illustrated fjallaði um kynninguna og myndbandið á vef sínum í dag. „Hannes Þór Halldórsson, leikstjórinn sem varði vítaspyrnu frá Lionel Messi á HM 2018, leikstýrir nýju kynningarmyndbandi íslenska knattspyrnusambandsins,“ segir meðal annars í umfjöllin Sports Illustrated um málið.

„Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem landsliðsmarkvörðurinn lætur til sín taka þegar kemur að því að leikstýra auglýsingum en hann leikstýrði auglýsingu Coca Cola fyrir HM 2018 sem dæmi. Myndbandið kemur inn á öll helstu einkenni Íslands og minnir um margt á stiklu úr Game of Thrones, frekar en kynningarmyndband fyrir knattspyrnusamband.

Að sjálfsögðu er víkingaklappinu blandað inn í þetta líka en nýr landsliðsbúningur Íslands lítur mjög vel út og er mun nákvæmari en gamli búningurinn. Þá er nýtt landsliðsmerki mun fallegra og sögulegra en gamla markið sem innihélt einfaldlega með skammstöfun KSÍ og fána Íslands,“ segir ennfremur inn á heimasíðu Sports Illustrated.

mbl.is